Handbolti

Þórir þjálfari ársins hjá IHF

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir og Vranjes með viðurkenningar sínar.
Þórir og Vranjes með viðurkenningar sínar. mynd/heimasíða hm 2015
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, og Ljubomir Vranjes, þjálfari Flensburg, voru í dag útnefndir þjálfarar ársins hjá IHF, Alþjóðahandknattleikssambandinu.

Þórir og Vranjes voru kallaðir fram á gólf og veittar viðurkenningar í hálfleik í leik Spánar og Frakklands í 16-liða úrslitum á HM í Danmörku sem nú stendur yfir.

Stelpurnar hans Þóris í norska liðinu eru komnar í 8-liða úrslit en þær unnu sex marka sigur, 28-22, á Þýskalandi í gær.

Þórir hefur náð frábærum árangri með norska liðið síðan hann tók við þjálfun þess af Marit Breivik árið 2009. Undir hans stjórn varð Noregur heimsmeistari 2009 og 2011, Evrópumeistari 2010 og 2014 og Ólympíumeistari 2012.

Vranjes hefur stýrt Flensburg undanfarin fimm ár en á síðasta tímabili endaði liðið 3. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og varð bikarmeistari þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×