Skoðun

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á Austurvelli

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Kæru vinir.

Ég þakka fyrir að fá að taka þátt í þessari samstöðu. Strax í síðustu viku þegar fréttir bárust af brottvísun þessara tveggja fjölskyldna þá fannst í samfélaginu ótrúleg bylgja samstöðu með þeim, samstöðu um að Ísland eigi ekki að vera samfélag sem vísar veikum börnum á dyr.

Á Íslandi höfum við viljað búa vel að börnunum okkar. Í skólunum okkar, heilsugæslunni og öllum innviðunum sem við höfum byggt upp þannig að yngsta kynslóðin fái tækifæri til að þroskast og vaxa og njóta bernskunnar.

Og við höfum fullgilt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem segir að

við megum ekki mismuna börnum;

við eigum í öllum okkar störfum að hafa það að leiðarljósi það sem börnum er fyrir bestu,

við eigum að tryggja börnum rétt til lífs og þroska og við eigum að tryggja börnum rétt til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif.

Nú þurfum við að velta því fyrir okkur hvort kerfið okkar taki tillit til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna – sem við fullgiltum 1992 og lögfestum 2013. Við þurfum að endurskoða kerfið og tryggja að við Íslendingar séum sátt við það. Því að kerfið á að þjóna okkur – ekki við kerfinu. Og kerfið er mannanna smíð – því má breyta ef pólitískur vilji er fyrir hendi.

Ég trúi því að við eigum marga stjórnmálamenn sem vilja réttlátt og mannúðlegt samfélag og sem vilja leggja það á sig að reyna að ná samstöðu um tilteknar breytingar og aðgerðir.

Við þurfum að ræða það hvort við teljum réttlætanlegt að hjálpa ekki börnum í nauð vegna óljósra hugmynda um að þá hellist yfir flóðbylgja af öðrum í sömu aðstæðum.

Ég segi að það sé ekki réttlætanlegt. Rétt eins og ekkert okkar sem einstaklingur myndi hika við að hjálpa slösuðu barni úti á götu vegna ótta við að önnur börn fylgi á eftir verðum við að taka ákvörðun sem samfélag um að bregðast ekki veikum börnum sem hingað koma.

Stöndum saman um samfélag sem bregst ekki börnum. Gleymum ekki hverjar eru frumskyldur okkar sem einstaklinga og sem samfélags.


Tengdar fréttir

Styður hugmynd um stofnun umboðsmanns flóttamanna

Sviðsstjóri hjálpar og mannúðarsviðs hjá Rauða krossinum vísar því á bug að hagsmunum hælisleitenda sé ekki borgið hjá lögfræðingum samtakanna en styður hugmynd um sérstakan umboðsmann þeirra.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×