Viðskipti innlent

Draga til baka afnám snakktolls

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur dregið til baka þá tillögu að fella niður 59 prósenta toll á innfluttu kartöflusnakki. Félag atvinnurekenda segir það vera gert vegna þrýstings frá innlendum framleiðendum. Þá bendir FA á að Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi lagt tillöguna fram í eigin nafni.

Í tilkynningu frá Félagi Atvinnurekenda segir að félagið harmi að stjórnarmeirihlutinn skuli guggna á því að afnema þennan verndartoll og hvetur félagið þingmenn til að samþykkja tillögu Sigríðar Andersen.

Sjá einnig: Gætu sparað neytendum 162 milljónir

„Verndartollar fyrir iðnað áttu að heyra sögunni til fyrir löngu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

„Ofurtollur á kartöflusnakk hefur verið réttlættur með því að hann sé hluti af tollvernd fyrir landbúnaðinn. Staðreyndin er hins vegar sú að engar íslenskar kartöflur eru notaðar í framleiðslu tveggja iðnfyrirtækja, sem framleiða snakk. Þau framleiða úr innfluttu hráefni, sem ber litla sem enga tolla. Snakktollurinn er þannig verndartollur fyrir iðnað, dulbúinn sem tollvernd fyrir landbúnað.“

Ólafur bendir á að neytendur greiddu á síðasta ári yfir 160 milljónir króna í toll af kartöflusnakki.

„Fram hefur komið að 20 manns starfi við snakkframleiðslu á Íslandi. Þetta eru þá átta milljónir á hvert starf. Það væri hagstæðara fyrir neytendur að fá snakkið án tolla og borga þessum tuttugu starfsmönnum meðallaun í landinu fyrir að gera ekki neitt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×