Skoðun

Fjárlagaleikritið

Brynhildur S. Björnsdóttir skrifar
Eftir lengstu umræðu um fjárlög sem menn muna eftir er nú ljóst að allar breytingatillögur minnihlutans voru felldar í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Minnihlutinn ákvað að sitja hjá við atkvæðagreiðslu í flestum málum meirihlutans á meðan meirihlutinn greiddi atkvæði gegn öllum tillögum minnihlutans.

Tillögur minnihlutans voru auðvitað margþættar en snérust í grunninn um að samfélagið rísi saman upp úr djúpri efnahagslægð í stað þess að sumir hópar rísi upp á kostnað annarra. Í því felst t.a.m. að leiðrétta kjör eldri borgara og öryrkja afturvirkt um nokkra mánuði. Rétt eins og laun þeirra sömu sem greiddu atkvæði gegn tillögunni. Aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið og óbreytt útvarpsgjald til að tryggja rekstrargrundvöll RÚV.

Ómæld vinna og tími hefur farið í gerð breytingartillaga minnihlutans og enn meiri tími í að ræða þær. Bara til að þær séu allar felldar. Meirihlutaræðið er algert. Tími og skoðanir 25 þingmanna virðast engu breyta um forgangsröðun opinbers fjár. Samtalið gagnslaust. Átökin í fyrirrúmi.

Leikritið er endurtekið ár eftir ár. Stór hluti minnihlutans tekur sér stöðu og stundar yfirlýst málþóf gegn því að stjórnarliðar neyðist til að ganga að samningum við þá. Störukeppnin hefst. Nema hér er ekki verið að stara. Hér er verið að öskra. Sá hluti minnihlutans sem trúir enn á þessar gömlu aðferðir hertekur pontuna og sá sem segir eitthvað krassandi kemst í fjölmiðla. Enda satt að segja eina leiðin sem virðist blasa við til að knýja fram samtal við meirihlutann. Gallinn virðist bara vera sá að það var aldrei meining um að fara í neitt samtal sem gæti leitt til betri niðurstöðu. Svona eins og fjölskyldur gera og aðrir vinnustaðir. Meirihlutinn á Alþingi ræður og hefur lítinn áhuga á samtali. Ákallið um ný stjórnmál virðast engu breyta. Gömlu leikreglurnar ráða enn ríkjum.

Þessi hjólför þarf að endurskoða. Þjóðin á það skilið. Hjal um breytt stjórnmál eru marklaus þegar þau birtast okkur í orði en ekki á borði.




Skoðun

Sjá meira


×