Viðskipti innlent

Kári þarf að greiða Karli

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þeir Karl og Kári
Þeir Karl og Kári
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, þarf að greiða hæstaréttardómaranum Karli Axelssyni rúmar tvær milljónir króna vegna vinnu sem hann innti af hendi fyrir Kára á árunum 2011 og 2012. Tveir fyrrverandi héraðsdómarar auk dómstjóra voru setudómarar í málinu vegna vanhæfi annarra hæstaréttardómara.

Ágreiningurinn mannanna var sprottinn af vinnu sem Karl, sem á fyrrgreindum árum starfaði sem lögmaður og var einn eigenda LEX lögmannsstofu, og aðrir lögmenn á stofunni unnu fyrir Kára. Í ágúst 2012 sagði hann sig frá málinu. Þá átti Kári eftir að greiða rúma 1,7 milljónir vegna vinnu lögmannanna.

Upphæðina taldi Kári og háa og vísaði málinu til úrskurðarnefndar lögmanna en hann kvartaði meðal annars yfir því að Karl hefði unnið verkið með öðrum, kvartað var yfir tímafjölda og því að hann hefði sagt sig frá verkinu án aðvörunar. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að Kári ætti að greiða Karli.

Málinu var áfrýjað til héraðsdóms sem staðfesti niðurstöðu nefndarinnar. Hið sama hefur Hæstiréttur nú gert.

Forstjórinn byggði mál sitt meðal annars á því að úrskurðarnefndin hefði farið út fyrir valdsvið sitt og að Karl hefði framselt málflutningsumboð sitt til annarra lögmanna á stofunni. Um fyrri málsástæðuna sagði rétturinn að heimildin til að bera ágreining um endurgjald undir úrskurðarnefndina tæki bæði til vinnu lögmannsins sjálfs og þeirra sem ynnu á hans ábyrgð. Hefði úrskurðarnefndin því ekki farið út fyrir valdsvið sitt.

„Óumdeilt er að áfrýjanda var frá upphafi ljóst að lögmaðurinn Þórhallur Bergmann myndi vinna að málinu með stefnda. Reikningar, vinnuskýrslur og tölvupóstsamskipti vegna málsins bera og með sér aðkomu hans að málinu og ósannað er að það hafi sætt sérstökum andmælum af hálfu áfrýjanda. Stefndi hafði yfirumsjón með vinnunni og bar á henni ábyrgð gagnvart áfrýjanda,“ segir orðrétt í niðurstöðum dómsins. Sú málatilhögun hafi ekki falið í sér framsal á málflutningsumboði.

Auk þess að greiða kröfu Karls var Kári dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, alls 400.000 krónur.


Tengdar fréttir

Kári Stefánsson neitar að borga reikninginn

Aðalmeðferð í máli Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, gegn Karli Axelssyni, hæstaréttarlögmanni hjá lögmannsstofunni Lex, fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Kári þarf að greiða reikninginn

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, þarf að greiða Karli Axelssyni, lögmanni og settum hæstaréttardómara, tvær milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×