Skoðun

Áskorun til útvarpsstjóra

Ása Guðlaug Lúðvíksdóttir skrifar
Ég heiti Ása Guðlaug Lúðvíksdóttir og samþykkti sem kjósandi í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012 að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá landsins. Síðan eru liðin meira en þrjú ár og málið er enn þá óafgreitt á Alþingi.

Ég sá heimildarmyndina Blue­berry Soup í Norræna húsinu í byrjun sumars, þar sem fjallað er um aðdraganda og framkvæmd stjórnlagaráðs og ég skora á þig að sýna myndina á RÚV. Ég hef það staðfest frá leikstjóra myndarinnar að það er auðsótt verk að fá leyfi til sýningar á myndinni.

Myndin fjallar um þá atburðarás sem átti sér stað eftir efnahagshrunið, en þá ríkti algjört vantraust milli þjóðar og stjórnvalda og krafan um ný gildi í samfélaginu var hávær. Því var haldinn þjóðfundur þar sem um eitt þúsund einstaklingar vítt og breitt úr samfélaginu komu saman og hófu að endurskilgreina lykilþætti í stjórnarskrá landsins. Í kjölfarið kaus þjóðin 25 fulltrúa til stjórnlagaþings til að klára verkið.

Stjórnlagaþing varð að stjórnlagaráði sem síðan vann sleitulaust í fjóra mánuði við að endurskrifa stjórnarskrána okkar. Vinnan fór áfram fram með dyggri aðstoð frá almennum borgurum, en fundum var varpað beint á heimasíðu stjórnlagaráðs og drög birt á síðunni um leið og þau urðu til. Því gat fólkið í landinu sagt skoðun sína jafnóðum og haft áhrif á útkomuna, þar með tekið virkan þátt í mótun nýrrar stjórnarskrár frá upphafi til enda.

Niðurstaðan var drög að nýrri stjórnarskrá sem afhent voru Alþingi síðsumars 2012. Þjóðin sýndi svo óvefengjanlegan vilja sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012, þegar tveir þriðju hlutar kjósenda svöruðu játandi að tillögur stjórnlagaráðs skyldu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Innblástur víða um heim

Slíkt beint lýðræði og valdefling fólksins í landinu þar sem heil þjóð endurskrifar eigin stjórnarskrá er einstakt í sögunni og hefur heimildarmyndin Blueberry Soup, sem segir þessa sögu, vakið gríðarleg viðbrögð og verið innblástur víða um heim þar sem hún hefur verið sýnd. Hefur myndin meðal annars verið sýnd í yfir 20 háskólum í Bandaríkjunum og þar á meðal í lagadeildum Harvard, Stanford og Berkeley.

Nýlega tókst með einstaklingssöfnun á netinu að afla 20 þúsund dala til þess að fjármagna Evrópureisu leikstjórans með myndina þar sem hún ferðaðist til 14 áfangastaða og alls staðar voru viðbrögð áhorfenda mikil. Hvar sem myndin er sýnd virðist hún, samkvæmt leikstjóra hennar, vekja sams konar viðbrögð, það er að segja hrifningu og innblástur þeirra sem hana sjá um að hægt sé að breyta samfélaginu með samstilltu átaki borgaranna sjálfra.

Þetta er einstakt framtak á heimsvísu og hafa fræðimenn á sviðum lögfræði og stjórnmálafræði skrifað um þetta lærðar greinar. Hér á landi er þó lítið fjallað um málið sem verður að teljast sérstakt í ljósi þess að þetta er vafalaust merkilegasta lýðræðistilraun sem Íslendingar hafa staðið fyrir.

Það vekur furðu að það sé fyrir tilstilli Stjórnarskrárfélagsins, lítilla óháðra félagasamtaka, en ekki ríkisfjölmiðils sem myndin er sýnd á Íslandi. Takmarkað fjármagn leiddi til þess að aðeins fáir gátu séð myndina þegar hún var sýnd í Norræna húsinu í byrjun sumars, en staðreyndin er sú að hún á erindi við okkur öll sem hér búum. Því árétta ég áskorun mína um að myndin verði sýnd í Ríkissjónvarpinu á næstunni.




Skoðun

Sjá meira


×