Viðskipti innlent

Fjármálaráðuneytið var mesti skólinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kolbeinn Marteinsson lauk prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann fór svo til Skotlands þar sem hann lærði almannatengsl. Hann verður framkvæmdastjóri Athygli almannatengsla frá áramótum. Fréttablaðið/GVA
Kolbeinn Marteinsson lauk prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann fór svo til Skotlands þar sem hann lærði almannatengsl. Hann verður framkvæmdastjóri Athygli almannatengsla frá áramótum. Fréttablaðið/GVA
Kolbeinn Marteinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Athygli almannatengsla og útgáfu. Hann tekur við starfinu í byrjun janúar. Kolbeinn hefur starfað sem markaðs- og kynningarstjóri menntavísindasviðs Háskóla Íslands undanfarin tvö ár, auk þess sem hann hefur sinnt stundakennslu við HÍ.

„Þar hef ég verið að takast á við þær skemmtilegu áskoranir að fjölga nemendum í kennara- og uppeldisfræðinámi,“ segir Kolbeinn. Hann segir að þetta hafi tekist ágætlega og til marks um það sé að nemendum hafi fjölgað um 20 prósent á síðasta ári frá árinu þar á undan. Kolbeinn hefur því fengist við markaðsstörf fyrir Háskóla Íslands en hann sinnti einnig öðrum störfum, eins og stjórnsýslustörfum.

Kolbeinn segir að auk þess sem hann muni sjá um daglegan rekstur hjá Athygli verði hann í ráðgjafarstörfum og fleiru. „En á eftir að móta það þegar ég byrja,“ segir hann. Athygli er rótgróið fyrirtæki, hefur starfað allt frá árinu 1989. Ellefu starfsmenn munu starfa með Kolbeini hjá Athygli og er fyrirtækið með skrifstofu á Akureyri og í Reykjavík.

Kolbeinn hefur komið víða við í atvinnulífinu, en hann var meðal annars aðstoðarmaður ráðherra um skeið. „Katrín Júlíusdóttir, sem er gömul vinkona mín, hringdi í mig 2011 og spurði mig hvort ég vildi koma með sér í iðnaðarráðuneytið. Það var ótrúlega skemmtilegur tími og fróðlegur,“ segir Kolbeinn. Þegar Katrín varð fjármálaráðherra fór Kolbeinn með henni í fjármálaráðuneytið. Hann segir að það hafi verið einn mesti skóli sem hann hafi komist í. Hann hafi fengið áhuga á ríkisfjármálum eftir á. „Ég til dæmis les fjárlögin þegar þau koma út, renni yfir þau. Og ég gleðst mjög mikið yfir batnandi hag ríkisins,“ segir Kolbeinn, sem bætir því við að hann ætli ekki að hafa frekari afskipti af stjórnmálum.

En ríkisfjármál eru ekki eina áhugamál Kolbeins. Á vorin, frá apríl og fram í október, veiðir hann á flugu. „Það er áhugamál sem hefur vaxið og mér þykir alltaf vænna og vænna um,“ segir Kolbeinn. Hann reynir því að feta stigið milli atvinnu, fjölskyldu og þessa áhugamáls sem hann brennur fyrir. „Ég veiði í raun alla fiska í straumvatni; lax, sjóbirting, sjóbleikju, staðbundinn urriða. Ég veiði bara allt sem ég kemst í,“ segir Kolbeinn.

Að auki hefur Kolbeinn æft karate undanfarin þrjú ár hjá Karatefélagi Reykjavíkur. Hann mun brátt taka fjórða kyu og segir mögulegt að hann verði kominn með svarta beltið eftir tvö ár, ef vel gengur.

Kolbeinn lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann útskrifaðist svo með meistarapróf í almannatengslum frá University of Stirling í Skotlandi árið 2004. Hann er fjölskyldumaður og kvæntur Hörpu Katrínu Gísladóttur sálfræðingi. Saman eiga þau þrjú börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×