Innlent

Heilsueflandi samfélag byggt upp í Breiðholti

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Þórdís Lilja Gísladóttir, verkefnisstjóri verkefnisins Heilsueflandi Breiðholt, segir verkefnið ná til barna, unglinga, fullorðinna og aldraðra.
Þórdís Lilja Gísladóttir, verkefnisstjóri verkefnisins Heilsueflandi Breiðholt, segir verkefnið ná til barna, unglinga, fullorðinna og aldraðra. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Vinnu um heilsueflandi samfélag hefur verið hrundið af stað í Breiðholti og nær verkefnið til allra aldurshópa, barna, unglinga, fullorðinna og aldraðra. Aðaláhersla í verkefninu er á fjóra þætti, næringu, hreyfingu, líðan og lífsstíl.

Um er að ræða útfærslu á forvarnastefnu Reykjavíkurborgar og stefnu um heilsueflingu sem byggir á samningi borgarinnar og landlæknis um samstarf.

„Leitast hefur verið við að ná til allra hagsmunahópa til að greina stöðu hverfisins og hef ég leitt vinnu við aðgerðaáætlanir leik-, grunn- og framhaldsskóla, félagasamtaka, félagsmiðstöðva, frístundaheimila, heimila fatlaðs fólks og félagsstarfs eldri borgara,“ segir Þórdís Lilja Gísladóttir verkefnisstjóri.

Hún segir markmiðið að börnin fái alltaf sömu skilaboðin en áherslurnar verði mismunandi eftir því um hvaða stofnun er að ræða. „Segjum sem svo að skóli velji þáttinn næringu. Þá er hugað að því hvort mötuneyti uppfylli ákveðinn staðal og spurt hvort ástæða sé til að taka á nestismálum nemenda. Hjá íþróttafélögum er mest áhersla lögð á hreyfingu en þau skoða þá til dæmis hvernig nesti börnin koma með í keppnisferðir.“

Þórdís nefnir einnig að hver og einn skóli búi til sína aðgerðaáætlun. „Í einum skóla gæti til dæmis verið lögð áhersla á að börnin fái hafragraut í skólanum á morgnana. Það þykir kannski ekki jafn mikilvægt í öðrum skólum í hverfinu.“

Verið er að reyna að hagnýta fræðin, eins og Þórdís orðar það. „Við vitum að kvíði og þunglyndi minnkar þegar heilsan batnar. Það er hægt að leysa mörg vandamál ef við erum sammála um aðferðirnar til þess.“

Að sögn Þórdísar styðja fjölmargar rannsóknir þá nálgun að heilsueflandi umhverfi bæti líðan nemenda, stuðli að bættum námsárangri og dragi úr brottfalli í skóla. Í félagsstarfi aldraðra sé mikilvægt að leggja áherslu á hreyfingu til að auka lífsgæði þeirra.

Þjónustumiðstöðin í Breiðholti vinnur þverfaglega með hinum ýmsu stofnunum í öllum viðfangsefnum verkefnisins. „Starfið beinist að því að minnka áhættuhegðun barna og ungmenna, skimun og íhlutun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×