Innlent

Lögreglu skortir þekkingu til rannsókna læknaverkum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sigríður Gunnarsdóttir og Ólafur Baldursson.
Sigríður Gunnarsdóttir og Ólafur Baldursson. vísir/GVA
Árlega eru fjögur til sex alvarleg, óvænt atvik og óvænt dauðsföll á Landspítalanum tilkynnt til lögreglu. Lögregla rannsakar ekki öll málin. Síðustu 15 ár hefur hún haft færri en tíu mál til meðferðar innan allrar heilbrigðisþjónustunnar. Ákæra var gefin út í einu máli. Það mál er fyrir dómi þessa dagana.

Stjórnendur Landspítalans segja lagasetningu um tilkynningaskyldu til lögreglu mjög óskýra. Kveðið sé á um að málin séu rakin til mistaka og vanrækslu en einnig óhappatilvika sem getur átt við um ótal mörg atvik sem séu ekki saknæm með nokkrum hætti.  

„Eins og hún er sett fram nú gætum við tilkynnt um ótal marga hluti til lögreglu. Til dæmis er mjög óljóst hvort tilkynna eigi fylgikvilla sem leiða til dauðsfalls,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar.

Í nýrri skýrslu starfshóps um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu er kallað eftir samstarfi landlæknis og lögreglu til að tryggja nauðsynlega þekkingu við rannsókn mála.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, sat í starfshópnum fyrir hönd spítalans.

Hann segir að tryggja þurfi nægilega þekkingu í lögreglurannsókn.

„Þetta eru sérhæfð mál og rannsakandi þarf að hafa forsendur til að skilja vettvanginn. Lögreglan hefur sjálf kvartað undan þessu,“ segir Ólafur. „Að sama skapi getur sú staða hæglega komið upp að okkur bráðvanti sérhæfða kunnáttu frá lögreglunni til að tryggja vandaða rannsókn á vettvangi.“

„Það vantar vettvang á milli eins og er til dæmis í Bretlandi þar sem sérstakt samkomulag ríkir milli lögreglu og heilbrigðisyfirvalda. Þar er hreinlega tekið öðruvísi á málum innan heilbrigðiskerfisins en úti á götu.“ 


Tengdar fréttir

Var í taugaáfalli við yfirheyrslu

Hjúkrunarfræðingur sem er ákærður fyrir manndráp hafði hlaupið á milli margra deilda og gefist lítill tími til að sinna sjúklingi sem lést. Sjálfsásakanir hafi valdið því að hún neitaði ekki sök í fyrstu skýrslutöku.

Aldrei neinn einn sökudólgur

LSH hefur lokið greiningu á 17 alvarlegum atvikum. Sýna ítrekað samskiptaskort og lélegt upplýsingaflæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×