Erlent

Allsherjarverkfall lamar grískt samfélag

Atli Ísleifsson skrifar
Verkfallið hefur haft áhrif á ferjusiglingar út í grísku eyjarnar, auk þess að flugumferð hefur raskast verulega.
Verkfallið hefur haft áhrif á ferjusiglingar út í grísku eyjarnar, auk þess að flugumferð hefur raskast verulega. Vísir/EPA
Mikill fjöldi manns hefur lagt niður störf í Grikklandi í dag til að mótmæla fyrirhuguðum aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Almenningssamgöngur liggja niðri og þjónusta á sjúkrahúsum er í lágmarki.

Verkfallið er það fyrsta sinnar tegundar frá þingkosningunum sem fram fóru í september. Tvö stærstu regnhlífarsamtök stéttarfélaga í landinu – Adedy, stéttarfélag opinberra starfsmanna, og GSEE, stéttarfélag vinnufólks í einkageira – standa fyrir verkfallinu.

Verkfallið hefur einnig haft áhrif á ferjusiglingar út í grísku eyjarnar, auk þess að flugumferð hefur raskast verulega.

Með verkfallinu vilja stéttarfélögin þrýsta á ríkisstjórn Alexis Tsipras forsætisráðherra að hætta við þær aðhaldsaðgerðir sem grísk stjórnvöld hafa heitið lánardrottnum sínum í skiptum fyrir frekari lán.

Talsmaður stjórnarflokksins Syriza hefur lýst yfir stuðning við þá sem hafa lagt niður vinnu og segir ríkisstjórnina vissulega ráðast í aðgerðir sem séu ósanngjarnar.

Stéttarfélögin hafa einnig boðað til mótmælafundar fyrir utan þinghúsið í Aþenu.


Tengdar fréttir

Evrópusambandið fagnar sigri Tsipras

"Framkvæmdastjórnin óskar Alexis Tsipras til hamingju með sigurinn,” sagði Margaritis Schinas, talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, við fréttamenn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×