Innlent

Skortur á raunhæfum lausnum olli vonbrigðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Sigmundur í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.
Sigmundur í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Vísir/EPA
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, segir að skortur á raunhæfum lausnum á flóttamannavandanum, eins og hann er núna, hafi ollið vonbrigðum. Sigmundur tók þátt í leiðtogafundi í Valletta á Möltu þar sem um 60 leiðtogar Evrópu- og Afríkuríkja ræddu um flóttamannavandann.

Fundinum lauk í dag og Sigmundur segir vandann gríðarlegan.

„Fátt bendir til að lát verði á þessu ástandi, nokkur þeirra ríkja sem undir hvað mestum þunga eru hafa brugðið á það ráð að taka upp landamæraeftirlit að nýju þrátt fyrir aðild að Schengen. Því olli það vissum vonbrigðum að ekki hafi komið fram á fundinum meira af raunhæfum lausnum á vandanum eins og hann er núna, þó að margar ágætar tillögur hafi komið þar fram um hvernig stemma megi stigu við vandanum til framtíðar,“ segir Sigmundur í tilkynningu frá Forsætisráðuneytinu.

Sigmundur ávarpaði fundinn og lagði hann áherslu á nauðsyn þess að ræða til hlítar rót vandans. Meðal annars þær aðstæður innan upprunalands sem hvetja til fólksflutninga, aðdráttarafl áfangastaðar og að hjálpa þeim sem mest þurfa á því að halda. Þar að auki sagði hann nauðsynlegt að ríki sendi frá sér rétt skilaboð, en hann væri ekki viss um að það hefði alltaf verið gert.

Auk þess vakti Sigmundur athygli á mikilvægi uppbyggingar verkefna á sviði hreinnar orku og jarðvarma. Það gæti byggt undir efnahagslega þróun og sjálfbærni Afríkuríkja. Hann benti á að Íslendingar tækju þegar þátt í slíkum verkefnum.

Samkvæmt tilkynningunni var fjallað um ýmsar hliðar og áskoranir sem fylgi fólksflutningum. Meðal annars bæði efnahagslegar og pólitískar.

„Fjallað var um nauðsyn þess að takast á við rót vandans og rætt um nauðsyn þess að greina á milli þeirra er þurfa alþjóðlega vernd og þeirra sem þurfa hana ekki og að berjast af auknum þunga gegn smygli, misneytingu og mansali.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×