Viðskipti innlent

Mikilvægt að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra

Höskuldur Kári Schram skrifar
Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. vísir/vilhelm
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fagnar áhuga lífeyrissjóða á að kaupa hlut í Arionbanka. Hann segir þó mikilvægt að koma í veg fyrir óeðlilega hagsmunaárekstra þegar virkir fjárfestar koma að eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum.

Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins skoða nú þann möguleika að kaupa Arionbanka og hafa fulltrúar þeirra þegar rætt við slitastjórn Kaupþings um málið. Fréttablaðið greindi frá þessu í dag en um er að ræða LSR, Gildi og Lífeyrissjóð Verslunarmanna.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fagnar þessum áhuga en segir þó mikilvægt að skoða hvernig það fari saman að lífeyrissjóðirnir, sem eru stórir fjárfestar á markaði , séu með ráðandi hlut í banka.

„Mér finnst ekkert að því að einhver hlutur í bönkunum sé í eigu lífeyrissjóðanna jafnvel þó að það væru allir bankarnir þar undir. Í þessum tilvikum eru uppi sömu álitamál og við höfum áður staðið frammi fyrir. Hvernig tryggjum við að það verði ekki óeðlilegir hagsmunaárekstrar t.d. á milli fjárfestingarstarfsemi og viðskiptabankastarfsemi? Hvernig viljum við sjá aðila sem eru virkir fjárfestar koma að eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum? Það eru svona álitamál sem við þurfum að taka til umfjöllunar og afgreiða,“ segir Bjarni.

Aðrir fjárfestingaraðilar höfðu áður óska eftir samfloti með lífeyrissjóðunum en sjóðirnir ákváðu hins vegar að ganga einir til viðræðna.

„Ég er hins vegar dálítið hugsi yfir því hvernig fréttir hafa borist af þessum viðræðum, því það virðist blasa við manni að sjóðirnir vilja helst starfa með öðrum sjóðum og umfram aðra fjárfesta. Það vekur mann til umhugsunar um það hvort að þetta séu mjög aðskildir sjóðir eða ekki,“ segir Bjarni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×