Innlent

Níu einstaklingar undir átján ára undirgengust ófrjósemisaðgerð

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ekki eru til upplýsingar um hversu margir fatlaðir hafa farið í slíkar aðgerðir.
Ekki eru til upplýsingar um hversu margir fatlaðir hafa farið í slíkar aðgerðir. Vísir/Getty Images
Níu ófrjósemisaðgerðir voru framkvæmdar á börnum undir átján ára aldri á tímabilinu 1998-2014. Umsókn um ófrjósemisaðgerð fyrir þessa einstaklinga voru undirritaðar af lögráðamanni. Átta stúlkur undirgengust slíka aðgerð og einn strákur. 

Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Páls Vals Björnssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar, um ófrjósemisaðgerðir. 

Engin gögn liggja fyrir um aðgerðir sem gerðar hafa verið á fötluðum einstaklingum, eins og spurningin snerist um. Hins vegar eru samantekin gögn um einstaklinga sem undirgengist hafa ófrjósemisaðgerð með samþykki skipaðs lögráðamanns.

62 umsóknir undirritaðar af lögráðamanni

Í svarinu kemur einnig fram að 52 ófrjósemisaðgerðir voru gerðar á einstaklingum undir 25 ára aldri á tímabilinu 1987-2014; á 41 konu og 11 körlum. Oftast voru gerðar ein til þrjár aðgerðir á ári en flestar á árunum 2001 og 2002, þegar sex og átta aðgerðir voru framkvæmdar.

Þegar allur aldursskalinn er skoðaður bárust 62 umsóknir undirritaðar af lögráðamanni fyrir 42 konur og 20 karla á tímabilinu 1984-2014; engin fyrir þann tíma. Undirritun einstaklinganna sem undirgengust aðgerðirnar voru ekki á öllum umsóknum, þó flestum. 

Karlar komnir í meirihluta

Í svarinu kemur einnig fram að heilt á litið, óháð aldri og hvort umsókn hafi verið undirrituð af lögráðamanni eða ekki, hefur mikil breyting orðið á því hvort konur eða karlar fari í ófrjósemisaðgerðir. 

Árið 1981 voru yfir 90 prósent þeirra sem fóru í slíkar aðgerðir konur en á síðasta ári voru karlmenn 79 prósent af þeim sem fóru í aðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×