Viðskipti innlent

Hagnaður Reita tæplega þrefaldaðist milli ára

Sæunn Gísladóttir skrifar
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita. Vísir/Daníel Rúnarsson
Rekstrarhagnaður Reita nam 4.715 milljónum á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 og hækkaði um rúmar 200 milljónir milli ára. Hagnaður tímabilsins nam 5,2 milljörðum, samanborið við 1,8 milljarð árið 2014. Hagnaðurinn tæplega þrefaldaðist því milli ára.

Eigið fé í lok tímabilsins nam 45 milljörðum króna og hækkaði um rúma fimm milljarða milli ára. Eiginfjárhlutfall var 40,5 prósent í lok timabilsins, samanborið við 39,1 prósent árið 2014. Vaxtaberandi skuldir námu 58 milljörðum, samanborið við 55 milljarða árið 2014.

„Rekstur Reita var á nokkuð lygnum sjó á þriðja ársfjórðungi og er það mat stjórnenda að afkoma fyrstu níu mánaða ársins hafi verið í samræmi við áætlanir félagsins.

Ein markverðustu tíðindin úr rekstri Reita á síðustu mánuðum urðu þegar ákveðið var að ganga til samninga við eigendur fasteignasjóðanna SRE I og SRE II sem eru í rekstri Stefnis hf., um kaup Reita á tilteknum fasteignafélögum. Heildarvirði kaupanna er nálægt átján milljörðum króna og stækkar eignasafn félagsins um 9% í fermetrum talið en virði eykst í kringum 17%.

Kaupin falla vel að eignasafni félagsins og fjárfestingarstefnu þess, samræmast vel þeim markmiðum sem félagið hefur sett sér varðandi fjármagnsskipan til framtíðar og arðsemi. Unnið er að afléttingu fyrirvara vegna kaupanna með framkvæmd áreiðanleikakannana og könnun á samþykki Samkeppniseftirlits fyrir viðskiptunum,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×