Innlent

Selja veiðileyfi á rjúpu á þjóðlendusvæðum

Sveinn Arnarsson skrifar
Veiðitímabilið hefst næstkomandi föstudag. Þúsundir veiðimanna munu leita rjúpna í jólamatinn á yfirstandandi tímabili og veiða jafnt á almenningum sem og í einkalöndum.
Veiðitímabilið hefst næstkomandi föstudag. Þúsundir veiðimanna munu leita rjúpna í jólamatinn á yfirstandandi tímabili og veiða jafnt á almenningum sem og í einkalöndum. vísir/vilhelm
Sveitarstjórn Húnaþings vestra meinar rjúpnaskyttum að veiða í almenningum og afréttum í almannaeigu innan marka sveitarfélagsins nema þeir greiði sveitarfélaginu 9.000 krónur í veiðileyfi.

Sveitarfélagið hefur gefið út auglýsingu þess efnis á vef sveitarfélagsins. Skotveiðifélag Íslands gagnrýnir vinnubrögð sveitarfélagsins harðlega og telur sveitarfélagið ekki hafa vald til slíkrar athafnar.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra, telur bæjarfélagið í fullum rétti til að skikka veiðimenn til greiðslu veiðileyfa.

„Við teljum okkur geta ráðstafað þessum veiðum eins og annarri veiði á svæðinu, til dæmis í vötnum á Arnarvatnsheiði þar sem greitt er fyrir veiðileyfi í vötnum á svæðinu. Við höfum úrskurð frá innanríkisráðuneytinu frá árinu 2006. Þangað barst kvörtun vegna svipaðrar auglýsingar og ráðuneytið gerði ekki athugasemd við þá ráðstöfun,“ segir Unnur Valborg.

Í millitíðinni hafa þó úrskurðir um þjóðlendur fallið og nokkrir staðir sem sveitarfélagið rukkar veiðileyfi á hafa verið skilgreindar sem þjóðlendur í eigu allra landsmanna.

Unnur Valborg telur samt sem áður hægt að rukka fyrir veiðileyfi áfram. „Það er alveg rétt að í úrskurði óbyggðanefndar er hluti þess svæðis þjóðlenda sem við rukkum fyrir veiði á.

Við teljum hins vegar að á meðan ekki hefur verið klárað að skilgreina þjóðlendur og hvað felst í því hugtaki með fullnægjandi hætti getum við haldið okkur við fyrirkomulagið eins og verið hefur.

Dúi Landmark, formaður Skotvís.
Dúi Landmark, formaður Skotveiðifélags Íslands, telur vinnubrögð sveitarfélagsins ekki til eftirbreytni.

„Það eru tvö svæði sem um ræðir hjá sveitarfélaginu. Annars vegar Víðidalstunguheiði og hins vegar Arnarvatnsheiði og Tvídægra. Ekkert kort liggur fyrir eða nákvæmlega hvernig þessu er háttað. Einnig verður að segjast að ef hægt er að rukka fyrir nytjar á afréttum og almenningum í almannaeigu eru það alvarleg tíðindi fyrir alla útivist á landinu,“ segir Dúi.

Rjúpnaveiðitímabilið hefst næstkomandi föstudag. „Þess er vænst að veiðimenn virði það fyrirkomulag sem hér er kynnt og viðurkenni að það sé sanngjarnt og eðlilegt að greiða hóflegt gjald fyrir aðgang að takmörkuðum gæðum eins og rjúpnaveiði,“ segir í auglýsingu sveitarfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×