Skoðun

Að hemja lúpínu – hvað dugar?

Þorvaldur Örn Árnason skrifar
Þann 13. okt. sl. sagði Fréttablaðið frá hugmyndum Dalvíkinga um að eyða lúpínu og fleiri ágengum jurtum til að vernda tiltekin gróðurlendi, m.a. friðland. Meðal annars var fyrirhugað að nota plöntueyðingarefnið roundup og olli fjaðrafoki því vísbendingar hafa komið fram um að það geti valdið krabbameini. Nú ber einnig að líta á það að roundup gerir lúpínunni aðeins tímabundinn grikk. Þær fáu skipulegu tilraunir sem gerðar hafa verið með að útrýma lúpínu á þann hátt benda til að eitrið gerir ekki annað en að grisja lúpínuna árið sem það er notað, ásamt því að ganga nærri flestum örðum tegundum. Lúpínan er hvað fljótust að ná sér aftur á strik, bæði vegna þess að fræ hennar í jarðveginum  lifir af og einnig rætur. Til að útrýma henni með eitri þyrfti að eitra árum saman – enginn veit hve lengi, því hluti af fræi lúpínunnar liggur lengi í dvala í jarðveginum uns það loks spírar. Eitrun er því afleit aðferð til að ná tökum á útbreiðslu lúpínu. 

Hvað annað er hægt að gera?

Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd (Sjá) hafa fylgst með lúpínu á nokkrum stöðum og prófað ýmislegt til að hægja á eða stöðva framrás hennar inn á friðað svæði eða forna gönguleið og hafa gefið út þessar ráðleggingar, byggðar á þeirri reynslu.

Velja þarf viðfangsefnin af kostgæfni, að þau séu brýn og viðráðanleg. Ekki færast of mikið í fang!  Það þjónar engum tilgangi að taka bara hluta af lúpínubreiðu, eða að taka hana bara eitt ár.

Endurtaka þarf aðgerðina árlega í nokkur ár – enginn veit hve mörg, því hluti af fræjum sem lúpínan myndar liggja í dvala í moldinni árum og áratugum saman.  Vinnan minnkar þó með árunum ef vel er staðið að verki.

 Veljum þann árstíma sem lúpínan er viðkvæmust og áður en hún myndar fræ, en fræmyndun byrjar suðvestanlands í lok júní og nær hámarki í ágúst. Líklega er hún viðkvæmust þegar hún er að byrja að blómstra, venjulega í júní, snemma eða seint eftir árferði. Ef fræmyndun er hafin þarf að safna stilkunum með blómum og fræbelgjum og fjarlæga af svæðinu (t.d. henda á nálægu svæði þar sem lúpína er fyrir og má þéttast).

Best er að taka lúpínuna með rót (með skóflu, sem þó er illmögulegt þar sem jarðvegur er grýttur) og valda sem minnstu jarðraski. Næst best er að taka allan ofanjarðarvöxtinn; stöngul og blöð, með sláttuorfi, hníf eða slíta upp.

Ungu og smáu kímplönturnar (þær sem eru á fyrsta ári) eru frábrugðnar stærri plöntum því kímblöðin (fyrstu tvö blöðin) eru allt öðruvísi. Mikilvægt er að læra að þekkja þær og tiltölulega auðvelt er að draga þær upp með rót. Þær ungplöntur sem ekki eru teknar verða mun erfiðari viðfangs næstu ár.

Merkja og þekkja staðinn og vinna þar árlega, helst tvisvar fyrstu sumrin. 

Hvað hægir á eða stöðvar útbreiðslu lúpínu?

Slíta hana upp með rót fyrir fræmyndun, eins og lýst er hér framar.

Klippa, skera eða slíta ofanjarðarvöxtinn árlega, sjá hér framar.

Sauðfjárbeit getur hindrað að lúpínungviði nái að vaxa og dafna og því eru sums staðar skörp skil við girðingar þar sem beitt er öðru megin girðingar og engin lúpína þeim megin. Þannig er hægt (með nokkrum tilkostnaði) að stöðva framrás lúpínu með því að girða beitarhólf þvert á útbreiðslustefnuna og beita árlega.

Tvennum sögum fer af því hvort hross bíti lúpínu, en það þyrfti að rannsaka nánar. Líklega þarf að nauðbeita ef þau eiga að bíta niður lúpínubreiður.

Skógur getur vaxið lúpínu yfir höfuð og skyggt hana út, en lúpínan heldur velli í skóglausum rjóðrum og í jöðrum. Kerfill (önnur framandi ágeng jurt) vex henni líka yfir höfuð og verður allsráðandi.

Allar aðferðir til að takmarka útbreiðslu lúpínu kosta mikið fé og/eða fyrirhöfn – og þekkingu.

Misskilningur eða ósannindi

Að hægt sé að eyða lúpínubreiðum með sauðfárbeit. Það hefur verið rannsakað og reynist yfirleitt ekki hægt. Lúpína er eitruð fyrir kindurnar og þær taka aðeins lítið af henni.

Að tryggt sé að hún hörfi eftir að hafa grætt upp landið. Á því gæti orðið bið í áratugi, jafnvel aldir, þó þekja hennar kunni að minnka. Dæmi eru um að gömul lúpína hafi hörfað, þ.e. minnkað og nánast horfið, einkum á þurrum, úrkomulitlum landsvæðum og í Heiðmörk, en víðast hvar virðist hún breiðast ört út.

Að hún vaxi og dafni bara í ógrónu eða lítt grónu landi. Ótal dæmi og fjöldi ljósmynda afsanna það. Sjá m.a. rannsókn frá Húsavík.

Að eitrun með roundup sé góð aðferð. Gerð var tilraun á Helluvaðssandi 2007 með mismunandi eiturskammta á mismunandi tíma sumars. Þekja lúpínu – svo og flestra annarra tegunda – var marktækt minni árið eftir í eitruðu reitunum, en lúpínan hvarf þó alls ekki og eitrunin hefur engin áhrif á fræforða í jarðvegi. Ekki virðist hafa verið metið hvort áhrifa eitrunarinnar gæti til lengri tíma. Þó er víða klifað á því í enn dag að hægt sé að útrýma henni með eitri. 

Lokaorð

Lúpínan er afkastamikil og hagkvæm uppgræðsluplanta og er heimilt að nota hana til landgræðslu á samfelldum svæðum á láglendi. Það er hins vegar afar erfitt að hafa stjórn á henni.

Alaskalúpína telst vera ágeng, framandi tegund í íslenskri náttúru. Sjá nánar hér.

Hún er jafnfram sú jurt sem ógnar hvað mest sérkennum og fjölbreytni íslensku flórunnar sé litið til næstu áratuga. Ekkert annað getur breytt ásýnd landsins jafn mikið, ekki einu sinni þær háspennulínur og virkjanir sem suma dreymnir um. 

Nokkrar heimildir:

Skýrslur um starf Sjálfboðáliðasamtaka um náttúruvernd í Reykjanesfólkvangi, Skorradal og Vogastapa

Gróðurframvinda í lúpínubreiðum. Borgþór Magnússon. 2012. Útdráttur og upptaka af 1 klst. erindi.

„Lúpína leggur undir sig land við Húsavík“ (N.I. 2011, byggt á ritgerð Sigríðar G. Björgvinsdóttur).  

Eyðing alaskalúpínu með plöntueitri – þéttleiki lúpínu. Magnús H. Jóhannsson og Anne Bau. 2009.

Hörfar lúpínan? Dæmi úr Heiðmörk. Daði Björnsson. Skógræktarritið 2011. 




Skoðun

Sjá meira


×