Skoðun

Meira norrænt samstarf!

Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði skrifar
Dagana 25.–29. október kemur Norðurlandaráð saman í Hörpu, þar sem 87 þingmenn, fulltrúar allra þjóðþinga Norðurlandanna ræða og taka ákvarðanir um mikilvægustu verkefni norrænnar samvinnu á komandi misserum. Engum blöðum er um það að fletta, að norræn samvinna hefur skapað Norðurlandabúum gríðarleg aukin lífsgæði á liðnum áratugum, bæði menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg, enda hefur stuðningur almennings við norræna samvinnu sjaldan verið meiri en einmitt nú.

Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði telja mikilvægt að stórefla þetta samstarf, ekki síst í ljósi þeirrar hröðu alþjóðavæðingar sem samfélög okkar ganga nú í gegnum með öllum þeim nýju möguleikum sem sú þróun býður nú upp á. Vel menntuð, tæknivædd og samfélagslega rík samfélög Norðurlandanna eiga þar gríðarlega möguleika og hafa mikið fram að færa, ekki síst ef þeim tekst að vinna saman sem öflug heild.

Sú staðreynd blasir enda við, að þrátt fyrir smæð landanna hvers fyrir sig, þá eru Norðurlöndin sameinuð meðal 10 öflugustu efnahagssvæða heims, atvinnuþátttaka, jöfnuður, jafnrétti, umhverfisvitund og félagslegt réttlæti með því mesta sem gerist í heiminum og vegna hins nána samstarfs og sameiginlegrar sögu og menningararfleifðar liggja viðhorf okkar og hagsmunir oftar en ekki saman.

Vilja nýta einstaka stöðu

Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði vilja nýta þessa einstöku stöðu enn betur en gert er í dag og sækja fram. Á þinginu í Hörpu munum við m.a. ræða hugmyndir jafnaðarmanna um aukið norrænt samstarf í umhverfismálum, markaðssetningu Norðurlandanna sem áfangastaðar ferðamanna, sameiginlega sókn menningar- og atvinnulífs á erlenda markaði og aukið samstarf í öryggis- og utanríkismálum. Við leggjum þar einnig fram tillögur okkar um aukið norrænt samstarf í baráttunni gegn heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum og einelti hvers konar sem og tillögur um velferð aldraðra, varnir gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði og aukið öryggi í flugsamgöngum og vernd persónuupplýsinga á netinu, svo eitthvað sé nefnt.

Þrátt fyrir hátíðarræður ráðamanna um mikilvægi norrænnar samvinnu, hafa fjárframlög þeirra til samstarfsins verið minnkuð umtalsvert á liðnum árum. Þessari þróun vilja jafnaðarmenn í Norðurlandaráði snúa við, og á þingi Norðurlandaráðs í Hörpu munum við kalla eftir skýrum svörum forsætisráðherranna í þessum efnum. Vilja þeir stórefla framlög til norræns samstarfs, líkt og jafnaðarmenn og sækja fram á alþjóðavettvangi undir merkjum sameinaðra Norðurlanda, eða vilja þeir halda áfram að draga saman seglin? Svörin fáum við vonandi á því spennandi þingi Norðurlandaráðs sem fram undan er í Hörpu.

Henrik Dam Kristensen,þingmaður Danmörku

Maarit Feldt-Ranta,þingmaður Finnlandi

Marit Nybakk,þingmaður Noregi

Phia Andersson,þingmaður Svíþjóð

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir,þingmaður Íslandi



stjórn Jafnaðarmanna í Norðurlandaráði




Skoðun

Sjá meira


×