Skoðun

Enn um skilyrðingar fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga

Erla Björg Sigurðardóttir skrifar
Á undanförnum vikum hefur verið mikil umræða um að skilyrða notendur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga með þátttöku í virkniúrræðum eða vinnu. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er ekki ákvæði um að skilyrða eigi fjárhagsaðstoð, en löggjöf annars staðar á Norðurlöndunum kveður á um að það skuli skilyrða, með mismunandi hætti þó.

Ef við berum okkur saman við Noreg þá er þar skýrt í lögum að langtímanotendur fjárhagsaðstoðar með fjölþættan vanda eigi rétt á að fá sérsniðna aðstoð samhliða fjárhagsaðstoðinni og að taka verði tillit til aðstæðna þegar aðstoðin er skilyrt. Þá hefur rannsókn á því að beita skilyrðingum sýnt m.a. að það sé tilhneiging til að stýra vinnuálagi starfsmanna með því að skilyrða með skertum bótum. Tímafrekara þykir að gefa hverjum og einum svigrúm með viðtölum til að vega og meta getu sína til að mæta þeim kröfum sem hvert úrræði gerir og hvort það mæti þörfum viðkomandi.

Í einhverjum tilfellum telja starfsmenn skilyrðingar eina ráðið til að fá fólk til að mæta í virkniúrræði, en aukin áhersla á skilyrðingar og virkni geti í framkvæmd stuðlað að stöðluðum vinnubrögðum sem gefur ekki mikla möguleika á einstaklingsmiðuðum og klæðskera­sniðnum úrræðum. Þjónustan geti því tæplega verið í samræmi við þarfir einstaklinganna og út frá þeirra sjónarmiðum. Rannsóknir á stöðu langtímanotenda fjárhagsaðstoðar sýna að margir þeirra búa við lakara heilsufar en almenningur bæði hvað varðar líkamlega heilsu og sálræn vandkvæði sem hamlar þeim að einhverju leyti í daglegu lífi. Algengt er þunglyndi, kvíði, svefnvandamál og vonleysi gagnvart framtíðinni. Umtalsvert fleiri eiga við áfengis- og/eða annan vímuefnavanda að stríða en gerist meðal almennings. Flestir þeirra hafa aðeins grunnskólamenntun eða minni menntun.

Árangur úrræða

Erlendar rannsóknir á árangri virkniúrræða þar sem skilyrðingum var beitt sýnir að þrátt fyrir þátttöku í slíkum úrræðum sé hópurinn óstöðugur á vinnumarkaði. Úrræðin báru helst árangur ef þau voru sniðin sérstaklega að þörfum þátttakenda. Starfsendurhæfingarúrræðin Kvennasmiðja og Grettistak á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins frá árinu 2001 eru fyrir langtímanotendur fjárhagsaðstoðar með fjölþættan vanda.

Rannsóknir á meðal þátttakenda í Kvennasmiðju og Grettistaki benda til þess að úrræðin hafi almennt aukið lífsgæði, bætt lífskjör, félagslega stöðu og aukið tækifæri þátttakenda á vinnumarkaði og/eða til frekara náms. Ekki síst er þátttaka valdeflandi og hefur jákvæð áhrif á sjálfsmynd. Þátttaka í Grettistaki styður við bata frá vímuefnafíkn og eykur verulega líkur á edrúmennsku. Þátttaka í Atvinnutorgum sem komið var á laggirnar í kjölfar efnahagshrunsins eykur líkur á að notendur fari í vinnu eða í nám og almenn ánægja er meðal þeirra með þá þjónustu.

Þéttur stuðningur

Einstaklingar sem hafa notið fjárhagsaðstoðar í Reykjavík og tekið þátt í starfsendurhæfingarúrræðunum Kvennasmiðja og Grettistak hafa stigið fram og bent á mikilvæga þætti eins og t.d. að það þurfi langvarandi þéttan stuðning til að öðlast fulla starfsgetu og trú á sjálfan sig. Það er í samræmi við rannsóknir sem sýna að fara skuli fram mat á starfsgetu sem er grundvallað á hugmynd um notendasamráð.

Notendasamráð er forsenda einstaklingsmiðaðra klæðskerasniðinna úrræða sem lýtur að því að viðkomandi einstaklingur sem sækir aðstoð hafi áhrif á val á úrræði og framvindu aðstoðarinnar. Þéttur stuðningur og eftirfylgd er allra mikilvægasti þátturinn með tilliti til þess að starfsendurhæfingin/virkniþjálfunin beri árangur. Úrræðin þurfa a.m.k. að vera til eins árs og með heilsdags dagskrá þar sem hver og einn þátttakandi hefur sinn ráðgjafa til að vera í tengslum við, og njóta þétts stuðnings. Einstaklingsáætlanir þurfa að vera út frá vandlegri kortlagningu á starfsgetu viðkomandi þátttakenda hvað varðar sálrænt og líkamlegt ástand ásamt félagslegum þáttum, neyslu áfengis og öðrum vímuefna- og húsnæðisaðstæðum. Gera þarf ráð fyrir verklagi með áðurgreindum þáttum sem er bæði krefjandi og tímafrekt.




Skoðun

Sjá meira


×