Skoðun

Hvar gifta hinir ópassandi sig?

Svanur Sigurbjörnsson skrifar
Stöku sinnum kemur það fyrir að trúlaust par vill fá húmaníska athöfn í kirkju með athafnarstjóra frá Siðmennt. Það var velkomið í Viðeyjarkirkju í sumar (sem er safn í eigu Reykjavíkur). En í Skógakirkju (sem er líka safn) fékk kirkjuvörðurinn áfall yfir því að hann hefði óvart leyft trúlausri athöfn að fara þar fram og var svekktur yfir því að borðkross var færður til. Í kjölfarið fékk hann því nærliggjandi kirkjusókn í lið með sér til að banna trúlausar athafnir í Skógakirkju þaðan í frá.

Almennt er staðan sú að Þjóðkirkjan hefur ekki leyft athafnir annarra en kristinna safnaða í kirkjum sínum frá árinu 2011. Nú skil ég ekki nema að hluta hvers vegna sumt trúlaust fólk vill gifta sig í kirkju en að sama skapi skil ég bara að hluta af hverju Þjóðkirkjan (og kirkjuverðir sumra safnkirkna) vill ekki leyfa þessum fáu trúlausu pörum að halda þar trúlausa athöfn.

Stundum vill fólk beygja svolítið leikreglurnar. Það vill fá rómantíkina sem fylgir því að vera í fallegu kirkjuhúsi og fá jafnframt að halda í heiðri eigin lífsgildi án trúar í athöfninni. Þetta er skrítið í huga hreinlínufólks en er eins konar rómantísk gagnsemishyggja. Nota á það besta úr því sem umhverfið hefur upp á að bjóða sama hvað hverjum finnst.

Kirkjur Þjóðkirkjunnar voru byggðar fyrir skattfé okkar allra og eru í raun þjóðareign. Hvers vegna opnar Þjóðkirkjan ekki hinn breiða faðm umburðarlyndis til "skrítinna" trúlausra líka? Við hvað er hún hrædd?

Svo er líka slatti af „blönduðum“ pörum (annað hjónaefna er trúað, hitt ekki) sem vilja sitthvað úr hvorum heimi, þeim trúaða/kristna og þeim veraldlega/húmaníska. Er það sjálfgefið að slík athöfn fari fram hjá presti í kirkju? Gæti það ekki verið hjá athafnarstjóra í kirkju eða presti í félagsheimili? Dæmigerð athöfn hjá sýslumanni í Reykjavík tekur um þrjár mínútur og fjallar um skyldur hjónabandsins. Er ekki gott að „blönduð“ pör hafi val um eitthvað annað?

Spyrjum okkur:

Eiga hjónaefni tilkall til þjóðareigna? Er það virkilega vanhelgun á kirkju að látlaus og falleg trúlaus athöfn fari þar fram? Hefur þjóðkirkjuprestur rétt á því að móðgast svo yfir því þegar hann er í raun sjálfur notandi kirkjuhúss í þjóðareign?

Ættu athafnarstjórar Siðmenntar að neita fólki um að stýra athöfnum þeirra í kirkju bara af því það er trúarleg bygging?

Sem athafnarstjóri hjá Siðmennt get ég svarað fyrir sjálfan mig að það er ekki hið ákjósanlegasta að stýra trúlausri athöfn í kirkju. Ég get þó auðveldlega leitt hugann frá byggingunni og einbeitt mér að fólkinu og athöfninni sjálfri. Það er sambræðingur lífsskoðana í þjóðfélaginu og ég held að það sé óvarlegt að heimta af öllum að vera alltaf sitt hvoru megin við þröskulda félaganna, trúarlegra sem veraldlegra. Sumir vilja bara, eða þurfa, að vera báðum megin og þeir eru ekki að skaða einn eða neinn.




Skoðun

Sjá meira


×