Innlent

Nærri þrefalt fleiri leita til talmeinafræðinga

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
MYND/Getty
Nærri þrefalt fleiri leituðu sér aðstoðar talmeinafræðinga á síðasta ári en fimm árum áður. Formaður Félags talmeinafræðinga segir um árs bið vera eftir því að komast að með börn hjá talmeinafræðingum.

Þeim hefur fjölgað verulega síðustu árin sem leita sér aðstoðar talmeinafræðinga. Tölur frá Sjúkratryggingum Íslands sýna að árið 2009 tóku þær þátt í að greiða fyrir talþjálfun 578 barna. Á síðasta ári var fjöldinn kominn í 1.387 börn. Kostnaður ríksins hefur á sama tíma aukist verulega vegna talþjálfurnar barna en á aðeins tveimur árum, frá árunum 2012 til 2014, fór hann úr um sextíu milljónum króna í um eitt hundrað milljónir króna.

„Það er mikil vakning í því að átta sig á því á þessum erfiðleikum og áhrifum þessara erfiðleika fyrir þessi börn og þannig að ég held að þeim sé svo sem ekkert að fjölga neitt við erum bara að finna þau betur,“ segir Þórunn Hanna Halldórsdóttir formaður Félags talmeinafræðinga á Íslandi.

Þórunn segir ungbarnavernd heilsugæslunnar hafa mikið að segja um það að verið sé að greina talvandamál fyrr en áður. Yngstu börnin sem koma til talmeinafræðinga gera það upp úr tveggja og hálfs árs aldri og oftar en ekki eftir skoðun á heilsugæslustöð. Algengt er þó að vandinn greinist síðar eða um 4 eða 5 ára aldur.

Þórunn segir mikilvægt að greina börn snemma. „Rannsóknir eru að sýna að málþroskafrávik geta haft mjög slæm áhrif á velgengni í námi og jafnvel upp á unglingsaldur og jafnvel á framtíðarhorfur þessar barna,“ segir Þórunn.

Takmarkaður fjöldi talmeinafræðinga er við störf hér á landi og hefur myndast töluverður biðlisti eftir því að komast með börn til þeirra á síðustu árum. „Rúmlega árs bið á flestum stöðum. Það er náttúrulega mjög langur tími fyrir þau börn sem eru nýgreind og þurfa að komast í þjónustu og þarf að fara að taka á þeirra vanda af skipulögðum hætti. Þannig að eitt ár er langur tími í lífi barns. Sérstaklega á leikskólaaldri,“ segir Þórunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×