Skoðun

Hærri greiðslur og lengra fæðingarorlof

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Það er fátt gleðilegra en að eignast lítið barn. Fæðingarorlofinu er ætlað að tryggja börnum samvistir við báða foreldra sína og jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þessum markmiðum er nú ógnað vegna fjárskorts. Árið 2008 tók 91% feðra fæðingarorlof en ekki nema 78% árið 2014. Auðvitað taka flestir foreldrar fæðingarorlof þrátt fyrir að tekjurnar lækki mikið en æ fleiri þurfa að stytta þann tíma eða sleppa því alfarið.

Fjölskyldur með ungbörn njóta ekki náðar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hámarksgreiðslur fæðingarorlofsins eiga að standa í stað og verða 370.000 krónur á mánuði þriðja árið í röð. Hefði fæðingarorlofið ekki verið skert eftir Hrun væri það um 820.000 krónur í dag.

Við í Samfylkingunni viljum hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi úr 370.000 kr. í 500.000 kr. á mánuði. Foreldrar eiga rétt á 80% af tekjum sínum í fæðingarorlofi upp að vissu hámarki. Með 500.000 króna hámarki væri tryggt að fólk með meðallaun nyti fullra réttinda. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir nýbakaða foreldra sem oft eru með þunga framfærslu og háan húsnæðiskostnað og eiga því erfitt með að lækka verulega í tekjum mánuðum saman.

Þegar fæðingarorlofinu sleppir tekur oftast við erfitt tímabil. Þetta vita allir sem beðið hafa vongóðir eftir leikskólaplássi mánuðum saman og þurft að treysta á dýrari dagvistun þann biðtíma, ef hún er þá til staðar. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lengdi fæðingarorlofið í 12 mánuði og átti sú lenging að taka að fullu gildi 1. janúar 2016. Hægri stjórnin hætti við lenginguna til að geta lækkað veiðigjöldin. Við í Samfylkingunni viljum lengja orlofið aftur í 12 mánuði og leggja þeim fjölmörgu sveitarfélögum lið sem vilja hjálpa fjölskyldum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.




Skoðun

Sjá meira


×