Innlent

Kærleiksandi sveif yfir minningarstundinni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fullt var út úr dyrum í Flateyrarkirkju á minningarstundinni í kvöld.
Fullt var út úr dyrum í Flateyrarkirkju á minningarstundinni í kvöld. Vísir/hafþór
Minningarstund fór fram í Flateyrarkirkju í kvöld þar sem 20 ár eru liðin frá því að snjóflóð féllu á bæinn með þeim afleiðingum að 20 einstaklingar létu lífið.

Samverustundin var afar vel sótt, raunar svo vel sótt að Flateyrarkirkja var „troðfull“ að sögn sóknarprestsins Fjölnis Ásbjörnssonar sem var himinilifandi með hvernig allt tókst til þegar Vísir náði tali af honum. Að mati Fjölnis kom mannmergðin þó ekki að sök, þvert á móti gaf hún athöfninni notalegan blæ. „Það var pláss fyrir alla þannig að allir gátu setið en þær þurftu að sitja mjög þétt sem gaf þessu öllu mjög góðan anda. Hver sat upp við annan og fyrir vikið var mikil nánd milli manna.

Fjölnir segir að hugmyndin að baki stundinni hafi verið margþætt. Annars vegar hafi hún verið hugsuð til þess að minnast þeirra sem fórust í snjóflóðunum og halda minningu þeirra á lofti.

„En við vildum líka minnast þess að það voru margir sem að björguðust og við ætluðum að vera þakklát fyrir þeirra líf og þá sem komu okkur til aðstoðar þegar við þurftum á því að halda,“ segir Fjölnir. „Þetta hafi því ekki einungis verið minningarstund heldur einnig vonar-, kærleiks- og þakklætisstund – stund fyrir lífið í rauninni,“ bætir hann við.

Grunnskólabörn úr bænum sungu lög fyrir viðstadda.Vísir/hafþór
Gestir stundarinnar fengu að njóta fjölbreyttrar tónlistar fyrir en tónlistarmaðurinn KK, kór grunnskóla bæjarins, félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og ungir tónlistarmenn frá Flateyri sungu og léku ljúfa tóna fyrir viðstadda. 

Að stuttum ræðuhöldum liðnum voru nöfn þeirra tuttugu sem létust lesin upp og mínútu þögn að því loknu. Í kjölfarið lék KK eitt af sínum þekktari lögum, When I think of angels. „Það var mjög fallegt,“ segir Fjölnir. 

Í lok stundarinnar fóru viðstaddir úr kirkjunni og kveiktu á kertum við minnisvarðann um þá sem létust sem stendur við hliðina á Flateyrarkirkju. 

Eftir að formlegri athöfn var lokið var öllum gestum boðið í kjötsúpu í Félagsbæ, félagsheimili bæjarins, og að sögn Fjölnis var það engu síðri stund en sú sem fram fór í kirkjunni. „Þeir sem þangað komu hittust, fengu sér súpu, drukku kaffi, spjölluðu saman og það sveif mikill kærleiksandi yfir þessum hópi,“ segir Fjölnir sem efast ekki um að þessi stund muni lifa með fólkinu sem hana sótti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×