Skoðun

Hvika hvergi

Lýður Árnason skrifar
Öflugt bréf málsmetandi manna og kvenna birtist nýverið í Fréttablaðinu. Í því er þrýst á tafarlausa uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Þessi ósk hefur bulið á þjóðinni umliðin ár en ekkert gerist.

Í bréfinu kemur fram að bregðast verði við hækkandi aldri landsmanna og aukinni þjónustuþörf með nýbyggingum. Um þetta hef ég reyndar alltaf efast og tel hlutverk þjóðarsjúkrahúss ekki það að yfirtaka alla kima heilbrigðisþjónustunnar heldur sinna fremur flóknari tilfellum og neyðarþjónustu ásamt kennslu. Hins vegar hefur samþjöppun undanfarinna ára fært Landspítalanum svo stórauknar byrðar að hann stendur vart undir sjálfum sér enda berast af því reglulegar fréttir.

Heilbrigðismál á Íslandi hafa allt of lengi verið í klakaböndum. Þau rorra í lausu lofti og enginn veit hvar né yfirhöfuð hvort eigi að lenda. En eigum við að kýla á margumrætt spítalaþorp eða fara í þveröfuga átt með minni einingum og reyna að tappa af Landspítalanum? Það gæti falist í litlum hverfisstöðvum með smáslysaþjónustu sem myndu létta á slysamóttökunni sem í dag fær nánast allt til sín sem aflaga fer á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Heilsugæsla sem opin væri á kvöldin yrði mjög gagnleg enda löngu komið í ljós að hefðbundinn opnunartími er ófullnægjandi í þeirri samfélagsgerð sem við búum í. Sömuleiðis er auðvelt að sjá fyrir sér göngudeildarþjónustu, sálfræðiþjónustu og einfaldari aðgerðir annars staðar en á Landspítalalóðinni. Upplagt væri svo að hafa krabbameinsdeildina á St. Jósefsspítala, í rólegu umhverfi þar sem fólk gæti átt sitt athvarf án þess að þurfa endurtekið að fara í gegnum allan pakkann. Í landshornunum væri svo hægt að efla fyrirliggjandi sjúkrahús. Samanlagt myndi þetta auka fjölbreytni og færa þjónustuna nær notendum. Og Landspítalinn gæti sinnt sínum verkefnum betur.

Húsnæðisvandi Landspítalans kallar vitaskuld á endurbætur, um það eru flestir sammála. En heilt spítalaþorp er ekki bara lausn á húsnæðisvanda heldur stefnumörkun til framtíðar. Sú umræða hefur ekki farið fram heldur verið kæfð. Hringbraut eða Fossvogur er ekki kjarni málsins heldur hitt, hvort við viljum auka miðstýringu heilbrigðisþjónustunnar með ofuráherslu á eitt þjóðarsjúkrahús og einnig hvort við viljum feta braut vaxandi sérhæfingar með tilheyrandi kostnaði eða ekki.

Þetta eru pælingar læknis sem starfar utan spítala og horfir þar af leiðandi öðruvísi á málin en hinn ágæti hópur sem skrifaði umrætt bréf. Vona það æri engan.




Skoðun

Sjá meira


×