Viðskipti innlent

Um 500 milljarðar renna í ríkissjóð í gegnum stöðugleikaframlag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson á fundinum í dag.
Bjarni Benediktsson á fundinum í dag. vísir
Greiðslur sem renna munu beint eða óbeint í ríkissjóð vegna stöðugleikaframlags föllnu bankanna nema nærri 500 milljörðum króna.

Þetta kom fram á blaðamannafundi stjórnvalda í Hannesarholti í dag vegna losunar gjaldeyrishafta og nauðasamninga slitabúa föllnu viðskiptabankanna þriggja, Kaupþings hf., Glitnis hf. og LBI hf.

Seðlabankinn hefur ákveðið að veita slitastjórnunum undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál vegna fyrirhugaðra nauðasamninga og sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að hann muni styðja þá niðurstöðu bankans.

Lægsta skuldastaða þjóðarbúsins í áratugi

Fram kom í máli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, að áætla megi að áhrifin vegna uppgjörs bankanna verði jákvæð fyrir þjóðarbúið.

Þannig muni gjaldeyrisforði þjóðarinnar aukast um 40 milljarða og hrein skuldastaða þjóðarbúsins verða um 10 prósent af landsframleiðslu á næsta en hún nemur um þriðjungi í dag. Sagði seðlabankastjóri að það yrði lægsta skuldarstaða landsins síðan á síldarárunum á 7. áratug seinustu aldar.

Heildarumfang aðgerðanna vegna losunar gjaldeyrishafta nemur 856 milljörðum króna. Alls nemur stöðugleikaframlagið sjálft tæplega 379 milljörðum króna. Þar af er stöðugleikaframlag Glitnis 229 milljarðar króna, framlag Kaupþings 127 milljarðar og LBI 23 milljarðar króna.

Mótvægisaðgerðir upp á 660 milljarða króna

Þá nemur ráðstöfun krónueigna innanlands í skatta, kostnað og fleira um 46 milljörðum króna en þó hefur slík ráðstöfun ekki neikvæð áhrif á fjármagnsjöfnuð.

151 milljarður króna fást með skuldalengingum og uppgreiðslum lánafyrirgreiðslna og endurheimtur núverandi krafna sem eru í eigu eignasafns Seðlabankans eru alls 81 milljarður króna.

Þessar mótvægisaðgerðir sem slitabúin þrjú munu ráðast í nema því alls 660 milljörðum króna.

Greinargerð Seðlabankans vegna aðgerðanna má nálgast hér og glærukynningu vegna blaðamannafundar hér.


Tengdar fréttir

Búist við að bankinn verði seldur aftur

Kröfuhafar í Glitni bjóða ríkinu Íslandsbanka sem hluta af stöðugleikaframlagi. Sameining við Landsbankann væri ekki í samræmi við samkeppnislög. Íslenskt verðbréfafyrirtæki ásælist Arion banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×