Viðskipti innlent

Kaupþing óskar eftir undanþágu frá gjaldeyrishöftum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Slitastjórn Kaupþings sótti um undanþágu síðastliðinn föstudag.
Slitastjórn Kaupþings sótti um undanþágu síðastliðinn föstudag. vísir/gva
Slitastjórn Kaupþings hefur formlega sótt um undanþágu frá gjaldeyrishöftum til Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaupþingi.

Sótt var um undanþáguna síðastliðinn föstudag en fram kemur í tilkynningunni að undanþágan sé nauðsynleg svo hægt sé að uppfylli skilyrði stjórnvalda í tengslum við losun gjaldeyrishafta. Umsókn slitastjórnarinnar er byggð á tillögum frá kröfuhöfum bankans.

Eins og kunnugt er hafa slitabú föllnu bankanna fram til áramóta til að uppfylla stöðugleikaskilyrði stjórnvalda vegna losunar gjaldeyrishafta. Þau felast meðal annars í greiðslu stöðugleikaframlags opg endurfjármögnun lána.

Þegar áætlun stjórnvalda var kynnt í júní síðastliðnum lögðu ákveðnir kröfuhafar bankanna fram tillögur um hvernig þeir hygðust standa að stöðugleikaframlagi.

Ítarlega útlistun á því má nálgast á vef fjármálaráðuneytisins en meðal þess sem tillögurnar fela í sér er að framselja kröfur á hendur innlendum aðilum að nafnverði um það bil 114,8 milljörðum íslenskra króna.


Tengdar fréttir

Haftalosun í þremur liðum

Oddvitar ríkisstjórnarinnar kynntu í gær aðgerðaáætlun um losun hafta. Lýtur að slitabúum gömlu bankanna, aflandskrónum og uppbyggingu raunhagkerfis. Heildarumfang aðgerðanna nemur 1.200 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×