Viðskipti innlent

Tálknafjörður með meiri fiskveiðikvóta en í fyrra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðjón Indriðason, útgerðarmaður á Tálknafirði. Fiskiskipið Kópur BA er fyrir aftan en það hefur nú verið selt til Suðurnesja.
Guðjón Indriðason, útgerðarmaður á Tálknafirði. Fiskiskipið Kópur BA er fyrir aftan en það hefur nú verið selt til Suðurnesja. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Flaggskip Tálknfirðinga, Kópur BA, hefur verið selt til Nesfisks í Garði ásamt 1.200 tonna aflaheimildum. Aðaleigandi Þórsbergs hf. á Tálknafirði, Guðjón Indriðason, staðfestir að búið sé að ganga frá sölunni. Þetta þýðir að fiskvinnsla hættir á Tálknafirði en 60 starfsmönnum Þórsbergs var sagt upp 1. september.

„Ég fæ 70% af kílóunum í aflamarki til baka í kílóum í krókaaflamarki," segir Guðjón en með skiptisamningum við Nesfisk segist hann fá 920 tonna kvóta til baka.

Sá kvóti verði nýttur á nýjum 22 tonna línubáti, sem Guðjón er með í smíðum hjá Trefjum í Hafnarfirði, en vonast er til að hann verði kominn á veiðar fyrir miðjan desember. Báturinn verður 12 metra langur, með línubeitingavél um borð, og kallar sú útgerð á sex til sjö manns í vinnu. Afli nýja bátsins verður seldur á markaði.

Guðjón segir að í raun verði meiri kvóti eftir á Tálknafirði eftir þessar breytingar en hann var með fyrir ári. Þá hafi hann verið með 850 tonn. Fyrir ári hafi bæst við 300 tonna kvóti þegar hann keypti Aðalbjörgu II frá Reykjavík.

„Ég er ekkert að flytja burtu. Ég er bara að hætta fiskvinnslu sem var í taprekstri. Óbreyttur áframhaldandi rekstur hefði farið í þrot," segir Guðjón, sem útilokar ekki að hefja aftur fiskvinnslu á Tálknafirði í framtíðinni ef skilyrði verða fyrir hendi.

Þórsberg hf. hefur verið stærsta atvinnufyrirtækið á Tálknafirði með 60 manns í vinnu. Eftir endurskipulagningu verða aðeins sex til sjö starfsmenn.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Tengdar fréttir

Uppsagnir á Tálknafirði reiðarslag fyrir samfélagið

„Fólk er að taka þessu mjög illa en marga grunaði að það væri eitthvað í gangi,“ segir einn þeirra 26 starfsmanna sem sagt var upp störfum hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Þórsbergi á Tálknafirði í fyrradag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×