Skoðun

Skapti og Skafti

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Það er gott að vera glæpamaður á Íslandi. Sérstaklega ef viðkomandi sérhæfir sig í fjármögnun og skipulagningu á innflutningi á fíkniefnum. Því rannsóknaraðgerðir lögreglu virðast ganga út á það að hafa hendur í hári burðardýra og fíkla en láta skipuleggjendur óáreitta.



Sú er raunin í sakamáli sem hefur nú verið dómtekið í héraðsdómi Reykjaness þar sem A og B eru ákærðir fyrir þátttöku í innflutningi á tæpum 20 kílóum af sterkum fíkniefnum. Ákærði A var handtekinn í Leifsstöð 3. apríl 2015. Lögreglan ákvað að láta ákærða A afhenda fíkniefnin undir eftirliti og fór afhendingin fram 7. apríl 2015.



Fyrir afhendinguna var lögreglan búin að koma fyrir gerviefnum og staðsetningar- og upptökubúnaði í ferðatösku ákærða A. Ákærði B, sem var nýkominn út af geðdeild og undir miklum lyfjaáhrifum, hitti ákærða A og tók á móti ferðatöskunni. Við svo búið var ákærði B handtekinn.



Við málsmeðferð í héraði var lögreglumaðurinn sem stýrði rannsóknaraðgerðinni spurður hvers vegna ákærði hefði verið handtekinn á vettvangi en ekki látinn afhenda ferðatöskuna áfram. Svarið var tæknilegir örðugleikar og almannahætta (lesist vilja- og getuleysi).



Þessi svör lögreglunnar eru að engu hafandi. Eftirfarandi spurningum er því enn þá ósvarað:

Í fyrsta lagi hvers vegna beið lögreglan í fjóra daga með að láta ákærða A afhenda ,,fíkniefnin“ og spillti þannig eigin rannsóknaraðgerð og rannsókn málsins? Í öðru lagi hvers vegna var ákærði B handtekinn á vettvangi en ekki látinn afhenda ferðatöskuna áfram og þannig reynt að handsama skipuleggjendur innflutningsins?



Til þess að fyllstu sanngirni sé gætt er rétt að halda því til haga að þessi vinnubrögð lögreglu eru þó ekki með öllu fordæmalaus því þau minna um margt á vinnubrögð lögreglunnar í bókinni ,,Krabbinn með gylltu klærnar” þar sem lögreglumennirnir Skapti og Skafti tilkynntu Tinna, að glæpamaðurinn Ómar Ben Salad væri alsaklaus af öllum ásökunum um fíkniefnasmygl, því hann hefði sagt þeim það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×