Enski boltinn

Hjörvar: Ný stjarna fædd í enska boltanum

„Það er ný stjarna fædd í enska boltanum, hann heitir Anthony Martial og þetta er öflugur strákur,“ sagði Hjörvar Hafliðason í Messunni í gær um nýjustu stjörnu Manchester United, Anthony Martial, eftir að franski framherjinn skoraði tvö mörk í 3-2 sigri á Southampton um helgina.

Þorvaldur Örlygsson og Ólafur Páll Snorrason voru sérfræðingarnir sem voru Hjörvari innan handar í gær þegar 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar var gerð upp.

„Það sem ég er hrifnastur af er fótavinnan hans inn í vítateignum. Hann er með skemmtilegar hreyfingar, rólegur á boltann og það er gaman að horfa á hann spila. Hann er ekkert að negla boltanum þegar hann fær færi, hann leggur hann bara í netið.“ sagði Þorvaldur og Ólafur tók undir orð hans.

„Hann kemur greinilega með bullandi sjálfstraust þótt að hann hafi verið keyptur á fullt af peningum. Þetta var frábær snúningur hjá honum í fyrsta markinu og svo leggur hann boltann undir markmanninn.“

Ólafur sagðist skilja afhverju fólk væri fljótlega farið að tala um næsta Thierry Henry þegar hann væri á vellinum.

„Hann er fljótur og og kröftugur leikmaður og manni sýnast hann vilja það. Fagnið hans er svipað og Henry fagnaði alltaf á sínum tíma. Þetta er bara 19 ára pjakkur og ekkert á hann reynt svo hann hefur farið fram úr mínum væntingum, ég átti ekki von á þremur mörkum í fyrstu tveimur leikjunum.“

Hægt er að sjá umræðuna um Martial í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×