Skoðun

Hönnun, handverk eða föndur?

Halla Helgadóttir skrifar

Í tilefni af umræðu um hlut hönnunar í flugstöð Leifs Eiríkssonar er mikilvægt að skoða hvað felst í orðinu hönnun.



Hönnun varðar allt frá smæstu merkingum og hlutum, yfir í flíkur, húsgögn, tæki, viðmót, upplifun, hús og skipulag og borgir. Hönnuðir úr ólíkum greinum hönnunar; arkitektar, vöru-, fata- og grafískir hönnuðir, nota mjög sömu aðferðafræði þó tækni og niðurstaða sé mjög ólík. Hönnun og handverk eru í eðli sínu mjög ólíkar greinar þó þær geti skarast og eigi stundum samleið.



Hönnuð vara er yfirleitt fjöldaframleidd, hönnuð af sérmenntuðum hönnuðum. Margir hönnuðir stofna fyrirtæki, hanna vörur og láta framleiða þær fyrir sig, markaðssetja og selja. Handverkið sjálft er sjaldnast aðalatriði hönnunarvöru en gæði og stöðugleiki í framleiðslu eru aðalatriði.



Sumir íslenskir hönnuðir framleiða vörur sínar sjálfir enda framleiðendur vandfundnir hér á landi. Hugmyndin er það sem skiptir mestu máli en ekki aðferðin við framleiðslu hennar. Aðrir hönnuðir hanna vörur og selja hugmyndir sínar til fyrirtækja sem sérhæfa sig í framleiðslu, sölu og markaðssetningu eða ráðnir til að vinna sérverkefni. Í þeim tilfellum er varan stundum markaðssett undir nafni hönnuðar (sb. IKEA) en oftast undir nafni fyrirtækisins. Langflestir hönnuðir vinna hjá hönnunarfyrirtækjum svo sem arkitektastofum, hönnunarstofum, auglýsingastofum eða hjá fyrirtækjum sb. Össur, CCP, 66North o.s.frv.



Listhandverk og handverk er unnið af list- eða iðnmenntuðu fólki sem hefur sérhæft sig í ákveðinni aðferð eða handverki.



Handverk er eðli málsins samkvæmt aldrei fjöldaframleitt og framleiðslugetan takmarkast af afköstum hvers og eins. Aðferðin, efnið og handverkið er aðalatriði sem hefur afgerandi áhrif á hugmyndina sem unnið er með og útkomu hennar. Handverksfólk og hönnuðir vinna oft saman. Handverk getur fallið undir skilgreininguna hönnun en flest handverk gerir það ekki. Handverk hefur átt undir högg að sækja, en þykir nú verulega áhugavert svið sem ungt fólk sækir í.



Föndur er það sem fólk gerir þegar það býr til eitthvað án þess að hafa sérstaka menntun eða sérhæfða kunnáttu. Margir föndra eða búa til hluti og nota uppskriftir eða fyrirmyndir úr í blöðum, af netinu eða annars staðar. Föndur er hvorki hönnun né listhandverk en nær einstaka sinnum að verða handverk.



Fjölbreyttur hópur hönnuða og arkitekta hefur unnið að endurbreytingum flugstöðvarinnar og koma þeir að verkefninu með ólíkum hætti. Það þarf að hanna byggingar, viðbyggingar, umhverfi húsanna, breytingar innanhúss, skipuleggja og hanna leiðir gesta, upplifun þeirra og áferð. Hanna þarf veitingahús, verslanir, merkingar og útlit. Þar að auki þarf að gæta þess að íslenskar hönnunarvörur svo sem föt og hlutir eigi sinn sess og séu til sölu í flugstöðinni.

Stórt og flókið verkefniBreytingar og endurhönnun flugstöðvarinnar er stórt og flókið verkefni sem þarf að leysa þannig að hún þjóni vel því fjölbreytta hlutverki sem hún gegnir. Það hefur skapað umræður og gagnrýni að í Leifsstöð virðist ekki hafa verið gert ráð fyrir sérverslun sem selur hannaðar vörur, s.b. Illum Bolighus á Kastrup.­ Við þekkjum flest þá verslun og þekkjum muninn á henni og verslunum sem selja hefðbundnar vörur fyrir ferðamenn.

Ég er sannfærð um að það var alls ekki vilji stjórnenda að úthýsa íslenskum hönnunarvörum úr Leifsstöð. En við skipulagningu stórra opinberra verkefna eins og endurskipulagningu flugstöðvarinnar þarf að gæta sérlega vel að því hvernig að útboðsgerð er staðið.



Við erum ung sem hannandi þjóð en höfum sýnt þó nokkra hæfileika á því sviði jafnvel svo að eftir því er tekið víða um heim. Sameiginlega eru hönnuðir að vinna markvisst að því að auka gæði íslenskrar hönnunar og þar með auka veltu og útflutning á því sviði. 



Hönnunarvörur geta vel átt heima með vönduðu handverki, en sérverslun fyrir ferðamenn er ekki endilega heppilegur vettvangur, enda eru hefðbundnar vörur í þeim verslunum oft ódýrar sb. hinn margumtalaði lundabangsi. Annað umhverfi hentar mun betur eins og við hlið alþjóðlegrar hönnunarvöru í hærri verðflokki.



Eða hefur einhver séð „Svan“ Arne Jakobsen, postulín frá Royal Copenhagen eða Apa Kay Bojesen til sölu innan um vörur fyrir ferðamenn í Danmörku: danska fánann, styttur af litlu hafmeyjunni eða varðmönnum drottningar?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×