Skoðun

Hvernig deyja tungumál?

Linda Markúsdóttir skrifar
Í gegnum tíðina hefur aragrúi tungumála dáið út um heim allan. Í mjög stuttu máli lognast tungumál oftast út af vegna utanaðkomandi þrýstings annarrar menningar sem hefur yfirburði sökum stærðar, valds og/eða efnahagslegs bolmagns. Málnotendur geta þá hvort sem er verið tilneyddir til að segja skilið við mál sitt eða kosið að gera það sjálfir í þeirri trú að þeir séu betur settir án þess. Sú menning sem nú þrýstir á íslenska tungu er alþjóðlega tæknimenningin.

Ungt fólk vill tala það mál sem setur það í samband við nýja og betri tíma. Tæknin er allt umlykjandi og nú er sú breyting að verða að í stað þess að þrýsta á hnappa mun tækjunum verða stjórnað með tungumálinu. Málnotendur munu því, hvort sem þeim líkar betur eða verr, þurfa að tala það mál sem tækin skilja. Á stafrænni öld snýst varðveisla íslenskrar tungu því að miklu leyti um fjármuni og forgangsröðun stjórnvalda.

Á stærri málsvæðum getur máltækni verið arðbær markaðsvara. Hérlendis mun slíkt seint standa undir kostnaði, hvað þá skila hagnaði, og því er mikilvægt að stjórnvöld veiti peninga í málaflokkinn. Eru hérlendir ráðamenn meðvitaðir um það og taka þeir mögulegan dauða íslenskunnar alvarlega?

Út á við rembast þeir við að fá almúgann til að trúa því. Á tyllidögum tala þeir um þann dýrmæta arf sem tungumálið er á meðan íslenski fáninn blaktir við hún. Þá slá íslenskumælandi hjörtu í takt og trúa því, þótt ekki sé nema eitt augnablik, að björgunarbátur drekkhlaðinn rannsóknarstyrkjum og íslenskri máltækni sé á leiðinni. Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði vissulega nefnd um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni árið 2014. Nefndin skilaði af sér aðgerðaráætlun í byrjun árs 2015 og lagði til að á tíu ára tímabili yrði tæpur milljarður íslenskra króna veittur til að styrkja stafræna stöðu íslenskunnar.

Hola íslenskra fræða

Í fjárlögum 2015 fengust 15 milljónir af þeim 40 sem beðið var um, eða tæp 38 prósent. Í glóðvolgum fjárlögum ársins 2016 eru 30 milljónir veittar í máltæknisjóð af þeim 90 sem talin var þörf á, sem samsvarar rétt rúmum 33 prósentum. Báturinn veltist því kannski um þarna á máltæknisjónum en það eru rétt um 35 prósenta líkur á því að hann vinni einhver björgunarafrek.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stendur: „Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd […]. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan.“ Hér eru á ferðinni sérlega göfug og falleg markmið. Forsætisráðherrann okkar, sá sami og skrifaði undir téðan stjórnarsáttmála, var eitt sinn ávíttur af forseta Alþingis fyrir að nota slettuna „soundbite“ í ræðustól. Hann brást við með orðunum „Herra forseti, ókei, ég skil hvað þú ert að segja.“ og sagði jafnframt að honum hefði þótt nauðsynlegt að grípa til enskunnar í þessu tilviki.

Í marsmánuði 2015 skilaði Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, margumræddum forsætisráðherra skýrslu um breytingu á íslensku peningakerfi á ensku án þess að nokkur haldbær rök lægju þar að baki. Við Arngrímsgötu 5 stendur ekkert en þar er aftur á móti stór og sérlega íslensk hola. Hún er hola íslenskra fræða þar sem enn bólar ekkert á húsinu sem stóð til að reisa þar.

Málvernd og virðing. Það var nefnilega það.




Skoðun

Sjá meira


×