Innlent

Ætla að endurreisa Gamla mjólkurbúið

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Gamla mjólkurbúið á Selfossi sem rifið var til að rýma fyrir nýju mjólkurbúi um miðja síðustu öld kemur til með að blasa við þeim sem aka inn í bæinn yfir Ölfusárbrú gangi eftir hugmyndir um uppbyggingu nýs miðbæjarkjarna í bænum.
Gamla mjólkurbúið á Selfossi sem rifið var til að rýma fyrir nýju mjólkurbúi um miðja síðustu öld kemur til með að blasa við þeim sem aka inn í bæinn yfir Ölfusárbrú gangi eftir hugmyndir um uppbyggingu nýs miðbæjarkjarna í bænum. Mynd/Batteríið arkitektar
Endurreisa á Gamla mjólkurbúið á Selfossi í nýjum miðbæ og þróa sýningu sem tengist íslenska skyrinu og mjólkuriðnaðinum, samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrita á í dag um samstarf Sigtúns þróunarfélags og MS. Húsið á að vera risið og starfsemi hafin þarnæsta sumar.

Sigtún þróunarfélag fékk í vor vilyrði bæjarráðs Árborgar fyrir úthlutun miðbæjarreitsins til þróunar á byggð fyrir almenna miðbæjarstarfsemi og ferðaþjónustu í húsum með sögulega fyrirmynd. Útfærðar hugmyndir að nýjum bæjarhluta verða kynntar á íbúafundi á Selfossi í kvöld.

Að því er fram kemur í gögnum Sigtúns var Gamla mjólkurbúið tekið í notkun 1929 og byggt eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Það hafi hins vegar verið orðið of lítið tuttugu árum eftir að það var reist. Nýtt mjólkurbú hafi verið vígt árið 1955, en lengi hafi verið talið slys að gamla mjólkurbúið skyldi vera molað niður á sínum tíma.

Í viljayfirlýsingunni, sem til stendur að undirrita í mjólkurbúi MS á Selfossi klukkan tvö í dag, kemur fram að MS hafi um árabil hugað að möguleikum til þess að kynna almenningi á Íslandi og erlendum gestum sögu og þróun mjólkuriðnaðarins, með sérstakri áherslu á vörur eins og íslenska skyrið. Upplýst er að áform hafi verið uppi um mótun sýningar á þessu sviði í samvinnu við bæjaryfirvöld í Árborg.

„Og vel gæti farið á því að þau yrðu að veruleika í endurreistu mjólkur­búi, sem á sínum tíma markaði upphaf að þéttbýli á Selfossi,“ segir í viljayfirlýsingunni. Mikill fengur gæti orðið að því ef mjólkurbúið fengi að rísa á ný „sem táknmynd fyrir mjólkur­iðnaðinn og sögu Selfoss“.

Horft yfir miðbæ Selfoss. „Gamla“ mjólkurbúið stendur við hringtorgið við Eyrarveg og aftast við Bæjargarðinn er eftirmynd miðaldadómkirkju.Mynd/Batteríið arkitektar
Fram kemur að Sigtún þróunarfélag hyggist beita sér fyrir og kosta bygginguna og leigja hana út til rekstraraðila í langtímaleigu, að því gefnu að MS gefi fyrirheit um tryggingu fyrir leigugreiðslum viss hluta hússins til afmarkaðs tíma. MS leggi fram fjármuni til þróunar á sýningu og kynningar- og markaðsrými í endurreistu mjólkurbúi í samstarfi við Sigtún þróunarfélag.

Í tengslum við hönnun sýningar í gamla mjólkurbúinu verði svo hugað að fram komnum hugmyndum um mjólkurtengdan veitingarekstur í húsinu, sem og fyrri áformum um rekstur upplýsingamiðstöðvar Árborgar í tengslum við skyrsetur á Selfossi. „Þá verði einnig farið yfir hugmyndir sem settar hafa verið fram um að komið verði á fót safni um verk Guðjóns Samúelssonar á efri hæð Gamla mjólkurbúsins.“

Vinna á að verkefnum þeim sem viljayfirlýsingin nær yfir núna í vetur og að starfsemi í Gamla mjólkurbúinu geti hafist sumarið 2017. „Gert er ráð fyrir að gengið verði til samninga milli MS og Sigtúns þróunarfélags þegar bæjarráð Árborgar hefur úthlutað miðbæjarsvæðinu til síðarnefnda félagsins.“


Tengdar fréttir

Uppbygging nýs miðbæjar á Selfossi að hefjast

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist vera svo hrifinn af hugmyndinni að hann íhugar að flytja á Selfoss þegar nýi miðbærinn verður tilbúin eftir tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×