Viðskipti innlent

Orka náttúrunnar og Silicor Materials semja um hærra raforkuverð

Sæunn Gísladóttir skrifar
Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, og Terry Jester, stjórnarformaður Silicor Materials, undirrituðu samninginn í dag.
Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, og Terry Jester, stjórnarformaður Silicor Materials, undirrituðu samninginn í dag. Vísir/OR
Fulltrúar Orku náttúrunnar (ON) og Silicor Materials hafa skrifað undir samning um sölu á 40 megavatta raforku til fyrirhugaðrar verksmiðju bandaríska fyrirtækisins á Grundartanga þar sem framleiddur verður kísill til raforkuframleiðslu úr sólarorku. Með samningnum hækkar það verð sem ON fær fyrir orkuna verulega og það er ekki tengt verði á afurðum kaupandans, segir í tilkynningu.

Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, og Terry Jester, stjórnarformaður Silicor Materials, undirrituðu samninginn við athöfn í Elliðaárstöðinni í dag. Þar hófst einmitt raforkuframleiðsla Reykvíkinga, sem ON hefur með höndum í dag. Samningurinn er fyrsti stórnotendasamningur um raforkusölu sem ON gerir eftir að að fyrirtækið tók við virkjanarekstri og raforkusölu OR í ársbyrjun 2014. ON á og rekur jarðgufuvirkjanirnar á Nesjavöllum og Hellisheiði auk vatnsaflsvirkjunar í Andakílsá.

Á næstu misserum renna út samningar um orkusölu til Landsvirkjunar sem OR gerði á árunum 1997 og 2000. Með samningi ON við Silicor tryggir fyrirtækið sölu á raforkunni sem bundin var í þeim samningum. ON mun því ekki ráðast í nýja virkjun til að afla orkunnar. Verðið sem ON fær með nýja samningnum hækkar verulega. Það er í bandaríkjadölum og mismunandi eftir áföngum afhendingar. Að jafnaði er heildsöluverðið í samningum farið að nálgast það sem heimili greiða fyrir rafmagn í smásölu í dag. Samningurinn er til 15 ára með möguleika á framlengingu. Afhending orku hefst á árinu 2018. Í samningunum sem eru að renna út er innifalinn í verðinu flutningur raforkunnar, sem er á hendi Landsnets. Í samningi ON og Silicor er flutningur ekki innifalinn og þar með dregur úr áhættu ON af því að þróun flutningskostnaðar verði fyrirtækinu óhagstæð.

19 þúsund tonn af sólarkísil á ári

Sólarkísilframleiðsla þarf mikið rafmagn og er umhverfisvæn. Þannig þurfti fyrirhuguð verksmiðja ekki að gangast undir mat á umhverfisáhrifum að mati Umhverfisstofnunar. Silicor Materials áformar að framleiða allt að 19 þúsund tonn af sólarkísil á ári til að byrja með. Afurðin er meðal annars notuð til að framleiða búnað til rafmagnsvinnslu úr sólarljósi. Fyrirhuguð fjárfesting fyrirtækisins nemur um 120 milljörðum króna og gert er ráð fyrir að um 450 manns vinni við verksmiðjuna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×