Formúla 1

Rosberg notar síðustu vélina í Singapúr

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Nico Rosberg þarf hugsanlega að nota fimmtu vélina og sæta refsingunni sem því fylgir seinna á tímabilinu.
Nico Rosberg þarf hugsanlega að nota fimmtu vélina og sæta refsingunni sem því fylgir seinna á tímabilinu. Vísir/Getty
Nico Rosberg, ökumaður Mercedes liðsins mun byrja að nota fjórðu vélina á tímabilinu í Singapúr um helgina. Það er síðasta nýja vélin sem hann má nota án þess að hljóta refsingu fyrir.

Rosberg og Lewis Hamilton, liðsfélagi hans hjá Mercedes voru báðir með nýja vél um borð við upphaf keppnishelgarinnar á Monza. Sú vél var talsvert uppfærð frá þeim sem á undan höfðu komið.

Rosberg varð að skipta aftur yfir í gamla vél fyrir tímatökuna, þegar leki kom upp í kælikerfi bílsins.

Gamla vélin gafst svo upp þegar einungis tveir hringir voru eftir af keppninni. Rosberg missti þá af verðlaunasæti og mikilvægum stigum í baráttunni við Hamilton og Sebastian Vettel á Ferrari um heimsmeistaratitil ökumanna.

Mercedes liðið segist ekki öruggt um hvort vélin sem var í bílnum þegar lekinn kom upp í kælikerfinu hafi orðið fyrir einhverjum skaða. Til stendur að setja hana í gang og framkvæma prófanir á henni. Hún gæti því komið að gangi seinna á tímabilinu, ef hún er í lagi.

Rosberg mun þó fá glænýja vél til afnota um helgina. Þegar sjö keppnir eru eftir af tímabilinu er ljóst að Rosberg mun þurfa tvær vélar til að aka þær keppnir. Ef sú sem varð fyrir kælikerfislekanum er ónýt þarf Rosberg að nota fimmtu vélina sem þýðir að hann mun færast aftur um sæti á ráslínu þegar að því kemur. Ef hún er hins vegar í lagi myndi það hjálpa Rosberg mikið í titilbaráttunni.

Hamilton leiðir keppni ökumanna með 53 stiga forskot á Rosberg. Vettel er svo 22 stigum á eftir Rosberg. Aðrir sem eiga stærðfræðilega möguleika á að verða heimsmeistarar eru: Felipe Massa á Williams, Kimi Raikkonen á Ferrari og Valtteri Bottas á Williams. Aðrir geta ekki orðið meistarar úr því sem komið er.


Tengdar fréttir

Bílskúrinn: Það helsta frá Monza

Lewis Hamilton kom fyrstur í mark og svo stóð hugsanlega til að dæma hann úr leik. Kimi Raikkonen átti frábæra tímatöku en hvað svo?

Rossi tekur sæti Merhi hjá Manor

Alexander Rossi mun keyra fyrir Manor liðið í næstu fimm keppnum. Fyrsta keppnin verður í Singapúr um komandi helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×