Viðskipti innlent

Posabilunin á föstudag: Hafði áhrif á um 3.600 posa

Atli Ísleifsson skrifar
Um 15 þúsund posar eru í umferð á landinu þessa stundina.
Um 15 þúsund posar eru í umferð á landinu þessa stundina.
„Þetta hafði áhrif á um 3.600 posa hjá um tvö þúsund söluaðilum okkar,“ segir Elvar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Verifone, um posabilunina sem kom upp á föstudaginn. Fjölmargir áttu þá í vandræðum með að greiða með kortum í posum í verslunum landsins og stóð bilunin yfir í rúma klukkustund.

Elvar segir starfsmenn Verifone enn vera að fara yfir nákvæmlega hvað gerðist og gera ráðstafanir þannig að þetta endurtaki sig ekki. „Þrátt fyrir þetta sem kom upp þá lágu posarnir okkar ekki alveg niðri heldur minnkaði afkastageta þeirra um helming á þessu tímabili sem um ræðir. Það voru því um 50 prósent af færslum sem fóru í gegn. Það var ekki algert stopp.“

Hafi samband við sinn viðskiptabanka

Elvar segir að fréttir hafi borist af því að margir hafi ítrekað látið strauja kortin sín og hafi því verið margrukkuð fyrir innkaup. „Það er Reiknistofa bankanna sem sér um að leiðrétta það svo það er í raun úr okkar höndum. Ég veit að þeir tóku allar færslur þar sem var fleiri en ein færsla með sömu upphæð og bakfærðu í dag.“

Elvar segir að þetta muni leiðréttast endanlega á fimmtudaginn, en bendir fólki á að ef það er enn með einhverja tvífærslu inni þá þurfi það að hafa samband við sinn viðskiptabanka.

Bilun í eldvegg

Hann segir að bilunin hafi skýrst af því að aðalkerfið hjá Verifone hafi bilað og þá sent mikið magn á varakerfið. „Svo virðist sem það hafi valdið bilun í eldvegg í varakerfinu sem leiddi til þess að það hætti að svara líka. Við erum búin að bregðast við því og stækka minnið í eldveggnum og gert ráðstafanir þannig að þetta endurtaki sig ekki.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×