Viðskipti innlent

Biluðu kortaposarnir: „Hvar eru peningarnir mínir?“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kortaposar hegðuðu sér ekki eins og best verður á kosið í dag.
Kortaposar hegðuðu sér ekki eins og best verður á kosið í dag.
„Þessi búðarferð kostaði mig tæpar sjötíuþúsund krónur,“ segir Oddný Magnadóttir. Hún var ein þeirra sem varð fyrir barðinu biluðum greiðsluposa í dag. Oddný gat ekki greitt fyrir vörur sínar en nú er útlit fyrir að peningarnir hafi engu að síður farið út af korti hennar.

Langar raðir mynduðust í mörgum búðum eftir að bilun kom upp í posum Verifone. Ekki var hægt að greiða með greiðslukortum um stund en vandamálið leystist að lokum. En eitthvað meira virðist hafa verið að því ýmsir hafa lent í því að þrátt fyrir að þeir hafi ekki getað greitt hafi peningarnir farið út af reikningi þeirra.



„Fyrirtækið sem ég var að versla við er til að mynda ekki með peningana og þeir eru ekki á reikningnum mínum. Hvar eru þeir þá?“ spyr Oddný. Hún komst að þessu er hún stóð í matvörubúð og ætlaði að greiða fyrir vörur sínar en ekki getað það þarf sem ekkert var eftir inn á debetkorti hennar.

Oddný skoðaði heimabanka sinn í símanum og sá að í búðinni þar sem hún hafði áður reynt að greiða var sama færslan endurtekin þar til kortið hennar var tómt. Hún hafði samband við verslunina og starfsfólkið þar vissi ekki hvað væri í gangi. Eftir að hafa haft samband við reiknistofu bankanna sáu þau að peningarnir voru ekki hjá þeim.

„Sem betur fer gat ég reddað matarinnkaupunum með því að draga fram kreditkortið en það eru ekkert allir í þeirri stöðu,“ segir Oddný.

Bilun í eldvegg orsakaði ástandið

„Það verður keyrð leiðrétting á þessu í fyrramálið eða eftir helgi,“ segir Elvar Guðjónsson framkvæmdastjóri Verifone. „Sé einhver í þeirri aðstöðu að þurfa að fá þetta leiðrétt fyrr getur sá hinn sami hringt í neyðarvakt banka síns og þeir laga það. Hjá öðrum mun þetta lagast sjálfkrafa um leið og leiðréttingin verður keyrð í gang.“

Elvar segir að það hafi komið upp bilun í eldvegg hjá þeim sem kom af stað keðjuverkun með fyrrgreindum afleiðingum. Fyrirtækið hefur nú þegar hafið rannsókn á því hvað gerðist til að fyrirbyggja að það gerist á nýjan leik. Slík rannsókn getur að sögn Elvars tekið ansi langan tíma.

„Við hjá Verifone viljum biðja alla þá sem urðu fyrir óþægindum sökum bilunarinnar innilegrar afsökunar á þessu. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að svona atburður endurtaki sig,“ segir framkvæmdastjórinn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×