Innlent

Frosti og Máni til liðs við Ísland í dag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frosti og Máni hafa gengið til liðs við Ísland í dag.
Frosti og Máni hafa gengið til liðs við Ísland í dag. Vísir/Stefán Karlsson
Útvarpsmennirnir Frosti Logason og Máni Pétursson, umsjónarmenn Harmageddon, hafa bæst í hóp dagskrárgerðarmanna hjá Íslandi í dag. Að sögn Frosta munu þeir félagarnir stýra hluta af mánudagsþáttum Íslands í dag og hefja þeir leik næstkomandi mánudag.

Frosti og Máni eru þaulreyndir fjölmiðlamenn sem stýrt hafa útvarpsþættinum Harmageddon á X977 um árabil. Að sögn Frosta gerir hann ráð fyrir að aðkoma þeirra að Íslandi í dag verði í ætt við útvarpsþátt þeirra.

„Þetta verður ákveðin blanda af Harmageddon TV og útvarpsþættinum okkar. Við munum fá fólk til okkar í viðtöl svona svipað og við höfum gert í útvarpinu. Einnig er meiningin sú að við mun fara hingað og þangað til þess að taka upp innslög eins og við höfum gert með Harmageddon TV,“ segir Frosti.

Frosti er spenntur fyrir framhaldinu og segir þetta rökrétt skref í þróun þáttarins.

„Við hlökkum bara til að takast á við þetta verkefni. Þetta er næsta stig í þróun Harmageddon og það verður gaman að prófa þetta.“

Andri Ólafsson, aðstoðarritstjóri á Fréttastofu 365, hefur tekið við stjórn Íslands í dag og von er á breytingum á ritstjórn, efnistökum og áherslu. Í gær greindi Vísir frá því Margrét Erla Maack myndi ganga liðs við Ísland í dag og aðkoma Frosta og Mána að þættinum er liður í þessum breytingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×