Innlent

Nýtt einkennisstef Rásar 1: Ekkert stef nógu gott fyrir RÚV

Birgir Olgeirsson skrifar
RÚV leitar að nýju einkennisstefi fyrir Rás 1 og er vonast til að það finnist fljótlega.
RÚV leitar að nýju einkennisstefi fyrir Rás 1 og er vonast til að það finnist fljótlega. Vísir/GVA
Ríkisútvarpið leitar enn að nýju einkennisstefi fyrir Rás 1 eftir að hafa hafnað öllum þeim 69 stefjum sem bárust inn í stefjasamkeppni RÚV frá 46 höfundum. RÚV efndi til samkeppninnar í mars síðastliðnum í samstarfi við Tónskáldasjóð Ríkisútvarpsins og var skilafrestur til miðvikudagsins 15. apríl. Í lýsingu á samkeppninni kom fram stefið eigi að lýsa Rás 1 á 21. öldinni en taka mið af hefð rásarinnar. Einnig var gerð sú krafa að hægt yrði að útfæra stefið í nokkrum gerðum, svo sem hátíðarútsetningu.

Skipuð var þriggja manna dómnefnd sem tónskáldið Daníel Bjarnason fór fyrir ásamt Bergljótu Haraldsdóttur, verkefnastjóra Rásar 1, og Þresti Helgasyni, dagskrárstjóra Rásar 1. Samkvæmt fyrstu tilkynningu átti að kunngera úrslit í maí síðastliðnum.

Ekkert stefjanna gat gegnt hlutverki einkennisstefs

Nítjánda maí síðastliðinn var tilkynnt að úrslit yrðu kunngjörð í byrjun júní. Það var svo 10. júní sem höfundunum barst bréf frá RÚV þar sem þeim var þakkað fyrir þátttökuna og áhugann en þeim tilkynnt um leið að ekkert stefjanna gæti gegnt því hlutverki að vera einkennisstef Rásar 1 og því ljóst að leitin að myndi halda áfram.

Verðlaunahafinn hefði fengið 250 þúsund krónur í höfundarlaun og til þess að fullklára stefið og ætlaði Ríkisútvarpið að sjá um kostnað vegna tækniþjónustu og hljóðfæraleiks ef þörf væri á. Höfundurinn hefði einnig fengið stefgjöld af öllum flutningi stefsins.

Í tilkynningunni sem barst frá RÚV um samkeppnina í maí síðastliðnum var vonast til að þessi nýja hljóðmynd myndi væntanlega hljóma á öldum ljósvakans fyrir alla landsmenn komandi haust og segir Þröstur Helgason að enn sé vonast til þess.

Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, sat í dómnefnd í stefjasamkeppni Rásar 1. Vísir/Stefán
„Ekkert sem kveikti í okkur“

„Við erum ekki búin að finna það sem við viljum en vonumst til að það gerist fljótlega.“ Hann segir ekkert stefjanna 69 hafa náð að heilla dómnefndina. „Við hlustuðum á þetta og það var ekkert sem kveikti í okkur. Við ákváðum frekar en að fara af stað með eitthvað sem við værum ekki fullkomlega ánægð með að leita þá aðeins betur.“

Spurður hvort að það eigi að leita sérstaklega til einhvers aðila eftir stefi svarar hann að RÚV sé að skoða ýmsar leiðir. „Við erum náttúrlega búin að prófa að halda samkeppni þannig að núna erum við að velta fyrir okkur að reyna að beita einhverjum öðrum leiðum.“

Þröstur segir lagið Ár vas alda í útsetningu Jóns Leifs hafa eitt sinn verið notað sem stef fyrir Rás 1 en lítið heyrst af því undanfarin ár. „Við erum að leita að einhverju í þá áttina,“ segir Þröstur sem vonast til að hlustendur Rásar 1 heyri nýtt einkennisstef rásarinnar einhvern tímann í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×