Lífið

Rokkjötnum frestað: Mastodon sótti hart að því að spila á Íslandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Troy Sanders, bassaleikari og einn söngvara, á tónleikahátíðinni PinkPop í fyrra
Troy Sanders, bassaleikari og einn söngvara, á tónleikahátíðinni PinkPop í fyrra vísir/epa
Rokkveislunni Rokkjötnum sem fyrirhugaðir voru í Vodafonehöllinni þann 5. september næstkomandi hefur verið frestað. Þeir munu þess í stað fara fram þann 5. desember.

Að sögn Snæbjörn Ragnarssonar, Skálmaldarmeðlims og eins skipuleggjenda Rokkjötna, er ástæðan óviðráðanlegar og ófyrirséðar aðstæður sem upp komu hjá meðlimum ofursveitarinnar Mastodon. „Þeir neyddust til að aflýsa öllum Evrópuleggnum eins og hann leggur sig – örugglega um 16 tónleikum,“ segir Snæbjörn en í tilkynningu frá Rokkjötnum segir að ástæðan sé af grafalvarlegum toga og snerti fjölskyldulíf eins meðlimasveitarinnar.

„Þegar maður fær svona fréttir langar mann fyrst bara að hengja haus og gefast upp,“ segir Snæbjörn enda sé hægara sagt en gert að finna dagsetningu sem hentar ofursveit eins og Mastodon.

Þá er ótalin aðkoma allra hinna sveitanna sem ætluðu að koma fram með Mastodon í Vodafonehöllinni og hafa margar hverja skipulagt tónleikahald sitt mánuði fram í tímann.

Því hafi það verið með miklu harki, tilfæringum og fórnum á báða bóga sem tókst að lenda dagsetningu sem hentaði Mastodon og íslensku skipuleggjendunum – 5. desember sem fyrr segir.



Nefndu lag eftir landinu í kjölfar tónleika á Grand Rokk

Snæbjörn segir að það megi ekki síst þakka því hversu hart meðlimir Mastodon sóttu að því fá að koma hingað. Hljómsveitin hafi sterka Íslandstengingu og sóttu landið heim skömmu áður en þeir „urðu það ofurband sem þeir eru í dag,“ eins og Snæbjörn kemst að orði.

Þeir stigu á stokk á Grand Rokk sáluga árið 2003 en ári síðar gáfu þeir út plötu sína Leviathan þar sem meðal annars mátti finna lagið Ísland. Platan Leviathan er sennilega þekktasta plata sveitarinnar en hún var valin plata ársins af öllum helstu rokktímaritum og besta þungarokksplata aldarinnar af vefsíðunni MetalSucks.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir:

„Mastodon og allt þeirra fylgdarlið ætlar sem sagt að leggja á sig ferðalag beint til Íslands til þess eins að spila fyrir okkur. Þeir fljúga að heiman, beint frá Bandaríkjunum og síðan beint heim aftur. Þessi fórnfýsi þeirra er algerlega ótrúleg og það er okkar heitasta ósk að Rokkjötnar geti endurgoldið þeim greiðann með tónleikum sem þeir gleyma aldrei. Við gerum okkur grein fyrir því að þessar breytingar gætu komið illa við einhverja en við töldum þetta besta kostinn í stöðunni því að öðrum kosti hefðum við orðið að slá hátíðina af. En, Mastodon tekur það ekki í mál og Rokkjötnar ekki heldur!“

The Vintage Caravan hleypur í skarðið

Þrátt fyrir að hagræðingarnar á tónleikahaldinu hafi gengið vonum framar þurfa tvær sveitir frá að hverfa, Agent Fresco og sveit Snæbjörns, Skálmöld.

The Vintage Caravan mun taka að sér að fylla skarð sveitanna en „fleira er ekki alveg útkljáð, hlutirnir hafa gerst mjög hratt og við vinnum nú að því hörðum höndum að koma öllu heim og saman,“ eins og segir í tilkynningu.

Miða á Rokkjötna má nálgast á tix.is og tilkynninguna má lesa hér að neðan.

ROKKJÖTNUM FRESTAÐ TIL 5. DESEMBER!Vegna óviðráðanlegra orsaka neyðumst við til þess að fresta Rokkjötnum 2015 til 5....

Posted by Rokkjötnar on Tuesday, 21 July 2015





Fleiri fréttir

Sjá meira


×