Innlent

Stjórnvöld standi að verðhækkunum

Linda Blöndal skrifar
Stjórnvöld standa að verðhækkunum á mjólkurvörum sem eru allt að þrefalt hærri en almennt verðlag, segir forstjóri Haga. Hann gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir að leyna neytendur þessum hækkunum og fyrir að krefjast stöðugleika og lágrar verðbólgu um leið og óréttmætar hækkanir eru ákveðnar. 

Smjör hækkar mun meira

Opinber verðlagsnefnd búvara ákvað fyrir skömmu að heildsöluverð á mjólkurvörum og mjólkurafurðum skuli hækki þann fyrsta ágúst næstkomandi um tæp fjögur prósent, nema smjör sem hækkar um 11,6 prósent.

Verðlagsnefndin bendir á breytingin sé til komin vegna kostnaðarhækkana undanfarin tvö ár við framleiðslu og vinnslu mjólkur og að síðasta verðbreyting hafi orðið fyrsta október 2013. Finnur Árnason, forstjóri Haga, bendir á að hér séu stjórnvöld að hækka matarverð umfram öll eðlileg viðmið.

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
„Þetta er í raun stjórnvaldsákvörðun. Þetta er opinber nefnd á vegum ráðherra sem tekur ákvörðun um þessar hækkanir. Það er tekin ákvörðun um að hækka smjör um 11,6 prósent og það er vitnað til þes að það hafi ekki hækkað frá því í október 2013. Vísitalan frá þeim tíma og fram í síðasta mánuð hefur hækkað um 3,39 prósent þannig að þessi ákvörðun er rúmlega þreföld vísitöluhækkun,” sagði Finnur í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. 

Fela hækkunina

Finnur segir að stjórnvöld reyni að fela hækkanirnar fyrir neytendum. 

„Ráðuneytið er að tilkynna þetta á laugardegi um mitt sumar sem segir í raun allt sem segja þarf. Það er verið að fela hækkun sem er langt umfram það sem eðlilegt er.”

Finnur beinir spjótum sínum að stjórnvöldum sem krefjist stöðugleika í landinu en geri svo annað sjálf með sínum ákvörðunum. 

„Bændur eru að fá minnstan hlut af þessari hækkun, þetta er að renna til afurðastöðva. Og það vekur auðvitað athygli að ráðuneyti sé að taka ákvarðanir fyrir fyrirtæki. Að sömu stjórnvöld og leggja áherslu á stöðugleika og lága verðbólgu séu að hækka verð á stakri nauðsynjavöru sem er þreföld hækkun á verðlagi fyrir það tímabil sem þau vísa sjálf til,” segir Finnur. Hann segir enn fremur að hækkanirnar muni smitast yfir í aðrar vörur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×