Skoðun

77 raddir

Óskar Steinn Ómarsson skrifar
Sharidyn Svebakk-Bøhn var nýorðin 14 ára. Hún hafði gaman af stjórnmálum og þann 22. júlí árið 2011 var hún mætt í sínar fyrstu sumarbúðir hjá AUF, ungum jafnaðarmönnum í Noregi. Útey var sannkölluð paradís í augum ungmennanna en á augabragði breyttist hún í helvíti á jörð. Sharidyn var skotin tvisvar sinnum í bakið af öfgamanninum Anders Behring Breivik.

Þennan dag myrti Breivik 77 manns í tveimur aðskildum árásum. Átta fórust í sprengjutilræði hans við stjórnarráð Noregs í miðborg Oslóar. Þar næst keyrði Breivik til Úteyjar þar sem hann tók 69 ungmenni af lífi. Í réttarhöldunum sagðist hann hafa verið að verja Noreg gegn svikurum. Svikurum sem væru að fremja menningarlegt þjóðarmorð. Í augum Breiviks voru ungmennin í Útey að eyðileggja norskt þjóðfélag.

Breivik vildi varðveita evrópska menningu. Hann lagði áherslu á “menningarlega einsleitni, siðferði, kjarnafjölskylduna, frjálsan markað, stuðning við Ísrael, lög og reglu og kristna trú,” eins og segir í manifestói hans. Þessi gildi áttu að vera Evrópu að leiðarljósi. Í veginum fyrir þessum draumi hans stóðu “menningarmarxistarnir”, 14 til 20 ára ungliðar norska Verkamannaflokksins. Svo hann skaut þá.

 

Breivik er ekki einn um þessar skoðanir. Það er í raun ógnvænlegt hversu mikið viðhorf hans ríma við orðræðu margra þeirra sem berjast gegn “íslamvæðingu Evrópu”, bæði á meginlandi álfunnar og hér heima. Á sama tíma og neyð flóttamanna við Miðjarðarhaf hefur aldrei verið meiri fer hatursglæpum gegn múslimum og öðrum innflytjendum fjölgandi víða í Evrópu. Dæmi eru um að íslenskir stjórnmálamenn tortryggi múslima og yfir þrjú þúsund manns hafa líkað við Facebook-síðu íslandsdeildar PEGIDA, alþjóðlegra haturssamtaka gegn múslimum. Þetta ætti að vekja ugg í brjósti okkar allra.

Svar Norðmanna við árásunum var meira lýðræði, meira umburðarlyndi og meiri víðsýni. Við sem viljum berjast fyrir opnu og frjálsu samfélagi þurfum alltaf að vera á varðbergi, því hatursorðræða getur fljótt leitt af sér hatursglæpi og hryðjuverk. Við megum aldrei leyfa öfgafólki að normalísera hatursorðræðu. Þann 22. júlí þaggaði Breivik niður í 77 röddum. Svar okkar verður að vera að virkja okkar eigin raddir í þágu frelsis, lýðræðis og víðsýni. Það eru gildi sem eru þess virði að verja.
Skoðun

Skoðun

Samgönguáskorun

Sigurður Ingi Friðleifsson,Guðmundur Haukur Sigurðsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.