Innlent

Reynslan af fríverslun við Kína valdið vonbrigðum

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Innflutningur frá Kína hefur ekki aukist jafn mikið og gert var ráð fyrir eftir að fríverslunarsamningur við landið tók gildi. Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir reynsluna af samningnum vera vonbrigði.

Fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína var undirritaður 15. apríl 2013 og tók samningurinn gildi 1. júlí í fyrra. Miklar væntingar voru bundar við samninginn, meðal annars af forsvarsmönnum verslunar hér á landi.

„Þegar að við horfum á tölurnar, berum saman innflutningstölur bæði 2013 og 2014 í samanburði við fyrstu fimm mánuði þessa árs til dæmis. Þá er ekki að sjá að það hafi orðin nein stökkbreyting í innflutningi á varningi frá Kína á þessu tímabili,” segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Hann bendir á að til þess að hægt sé að nýta sér þau fríðindi sem samningurinn skapar, það er niðurfellingu tolla, þarf innflutningurinn að vera beinn frá Kína til Íslands. Ef vara er tollafgreidd í öðru ríki á leiðinni hingað, falli öll fríðindi niður. Smærri innflytjendur eigi því í erfiðleikum með að nýta sér samninginn, þar sem þeir geta ekki flutt inn vörur til landsins í gámavís.

Er reynslan af samningnum vonbrigði?

„Ég vil segja það já. Þetta kemur okkur á óvart. Við fundum fyrir miklum áhuga í aðdraganda samningsins, við ýttum á að þessi samningur yrði gerður og fögnuðum honum sérstaklega,” segir Andrés.

Samtökin sjái þó enn mikil tækifæri í samningnum.

„Við þurfum bara hins vegar held ég að fara bara ofan í saumanna á því hvað getur legið þarna að baki. Fara yfir það með stjórnvöldum, til hvaða leiða við getum gripið til þess að íslensk fyrirtæki geti nýtt sér þennan samning,” segir Andrés.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×