Handbolti

Formaður HSÍ: Skoðuðum ekki aðra kosti í starfið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Kristjánsson og Guðmundur B. Ólafsson.
Aron Kristjánsson og Guðmundur B. Ólafsson. vísir/eva björk/vilhelm
Eins og kom fram fyrr í dag verður Aron Kristjánsson áfram landsliðsþjálfari karla í handbolta, en hann gerði nýjan tveggja ára samning við HSÍ í dag.

Aron hefur stýrt liðinu frá 2012 og á þeim tíma náð fimmta sæti á EM 2014 en tvívegis fallið úr leik með Ísland í 16 liða úrslitum á HM; bæði 2013 og 2015.

„Hann var langbesti kosturinn í stöðunni,“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, í samtali við Vísi.

Legið hefur lengi fyrir að Aron yrði samningslaus eftir undankeppni EM 2016 og var lítið að gerast í viðræðum HSÍ og Arons framan af ári, sérstaklega eftir dapran árangur í Katar.

„Við vorum ekki að skoða aðra kosti,“ fullyrðir Guðmundur. „Við vildum bara sjá hvernig liðinu myndi vegna. Við gerðum breytingar á þjálfarateyminu og Ólafur Stefánsson kom inn. Árangurinn eftir það hefur verið mjög góður.“

„Það er búið að vera stígandi í liðinu og andinn góður í hópnum,“ bætir Guðmundur við.

Samhliða því að þjálfa landsliðið kemur Aron aftur inn í fræðslumálin hjá HSÍ og verður lykilmaður í menntun íslenskra þjálfara.

„Hann er komin í starf hjá okkur þó ekki sé um að ræða beina vinnuskyldu. Hans verkefni eru þessi fræðslumál og sérstaklega þjálfaramenntunin,“ segir Guðmundur.

„Aron mun einnig fylgja eftir þessum afrekshópum, en hann og Ólafur verða með þá áfram.“

Samningurinn er til tveggja ára sem fyrr segir og klárar Aron því HM 2017 (komist Ísland þangað) og undankeppni EM 2018 klári hann samninginn.

„Samningurinn er samt uppsegjanlegur að beggja hálfu eftir eitt ár þannig báðir aðilar geta lokað á þetta á næsta ári kjósi þeir svo,“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.


Tengdar fréttir

Endurreisnin fullkomnuð í Laugardalshöll

Íslenska landsliðið tryggði sér sæti á níunda Evrópumótinu í handbolta í röð með tólf marka sigri á Svartfjallalandi, 34-22, í Laugardalshöllinni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×