Innlent

Forstjóri Landspítalans: „Eins afdráttarlaust eins og ég held að það geti orðið“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mikill meirihluti Íslendinga vill að nýr Landspítali verði reistur. Þetta eru niðurstöður könnunar Maskínu á viðhorfum til nýs spítala. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, kveðst ánægður með niðurstöðuna.



Meirihlutinn er einnig sammála um að reisa eigi spítalann við Hringbraut eins og áætlað er en 28 prósent vilja aðra staðsetningu. Páll segir að stuðningur hafi farið vaxandi við staðsetninguna, sé tekið mið af könnun Gallup frá því í haust.



„Það er nú bara þannig að það orkar allt tvímælis sem gert er og það mun seint nást full sátt um þessa staðsetningum,“ segir hann um niðurstöðuna. „Hins vegar sé ég bara við það að bera það saman við niðurstöðu úr Gallup könnun frá því í haust að það er vaxandi stuðningur í rauninni meiri stuðningur við það að byggingar vísi á Hringbraut heldur en áður og meiri heldur en fyrir því að þetta rísi einhvers staðar annars staðar, sem er þá ákaflega óljóst plan.“



Páll segir niðurstöðurnar sýna að þjóðin hafi skilning á þörfinni á nýjum Landspítala.



„Það er alveg ljóst að okkar málflutningur hefur skilað sér í miklum skilningi þjóðarinnar á mikilvægi þess að endurnýja þjóðarsjúkrahúsið,“ segir hann. Það eru fjórir af hverjum fimm sem eru mjög hlynntir og síðan eru önnur fimmtán prósent sem eru í meðallagi sáttir við það þannig að það eru eingöngu einn af hverjum tuttugu sem telja ekki þörf fyrir að endurnýja byggingar á Landspítalalóð.“



Páll segist fagna niðurstöðum könnunarinnar en hann telur að hún sé eins afdráttarlaus og mögulegt sé. „Auðvitað fögnum við þessu, þetta er náttúrulega eins afdráttarlaust eins og ég held að það geti orðið á landi eins og Íslandi þar sem margar skoðanir eru alltaf uppi,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×