Innlent

„Þetta hótel er ekki boðlegt“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Þetta á ekki að vera svona og við seljum ekki svona vöru,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands, um hótelherbergið sem Sigrún Lövdal fékk í Glasgow.
„Þetta á ekki að vera svona og við seljum ekki svona vöru,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands, um hótelherbergið sem Sigrún Lövdal fékk í Glasgow. Vísir/Facebook
„Þetta hótel er ekki boðlegt,“ segir Skarphéðin Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands, sem rekur Úrval Útsýn, í samtali við Vísi um frásögn Sigrúnar Eddu Lövdal sem greindi frá afskaplega slæmu hótelherbergi sem fékk hjá ferðaskrifstofunni.

Sigrún Edda hafði keypt helgarferð af Úrvali Útsýni til Glasgow í Skotlandi þar sem hún átti að gista á hóteli sem nefnist Alexander Thomsson. Hún segir ferðaskrifstofuna hafa gefið þá umsögn að um væri að ræða gott þriggja stjörnu hótel en þegar þangað var komið var ljóst að svo var ekki.

Á móti Sigrúnu og ferðafélögum hennar tók við hrikalega vond lykt. „Drottinn minn dýri hvað herbergið var ógeðslegt. Hef aldrei upplifað annan eins viðbjóð á hótelherbergi,“ skrifaði Sigrún.

Skarphéðinn mun eiga fund með Sigrúnu á morgun en hann segist hafa verið í sambandi við þá umboðsskrifstofu sem hafði milligöngu um þetta hótel. „Þetta á ekki að vera svona og við seljum ekki svona vöru. Við erum búin að hjóla í þetta mál og munum eiga fund með Sigrúnu á morgun,“ segir Skarphéðinn.

En það var ekki einungis hótelherbergið sem ekki stóðst við þessa helgarferð Sigrúnar til Glasgow heldur varð einnig níu klukkutíma seinkun á flugi hennar til Íslands. Hún segir Úrval Útsýn ekki hafa látið sig vita af seinkuninni þrátt fyrir að tilkynning hafi borist skrifstofunni frá Icelandair. Sigrún segist vera með staðfestingu frá Icelandair að tilkynningin var send með sms-i í símanúmer sem fylgdi með bókuninni frá Úrval Útsýn.

„Svo við máttum hanga á flugvellinum í 11,5 klukkutíma fyrir það eitt að því er virðist að starfsfólk Úrval Útsýn hafði ekki fyrir að láta okkur vita.“

Skarphéðinn vill þó meina að hér standi orð gegn orði.

„Við fengum ekki þessa tilkynningu og gátum ekki komið henni áfram til hennar. Þannig að þar er bara orð gegn orði. Hins vegar er alveg klárt að Sigrún á sinn rétt varðandi þessa seinkun og mun ábyggilega sækja þann rétt og það er samkvæmt þeim reglum sem gilda og þær reglur kveða á um að hún þurfi að snúa sér beint til flugfélagsins. En við aðstoðum hana og leiðbeinum ef við getum,“ segir Skarphéðinn.

Ferðaskrifstofan Úrval Útsýn gerir sig út fyrir að bjóða ferðir þar sem hámarksgæði og þjónusta fara saman við hagstæð...

Posted by Sigrún Edda Lövdal on Monday, May 18, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×