Innlent

Fundað um sameiningu eða samstarf menntaskóla á Norðurlandi

Bjarki Ármannsson skrifar
Menntaskólinn á Akureyri.
Menntaskólinn á Akureyri.
Menntamálaráðuneytið hefur boðað til fundar skólameistara Menntaskólans á Akureyri, Menntaskólans á Tröllaskaga og Framhaldsskólans á Húsavík á Akureyri á morgun þar sem umræðuefnið verður sameining eða samstarf skólanna þriggja.

Akureyri vikublað greindi fyrst frá fundinum en Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri staðfestir þetta í samtali við Vísi. Hann segir skólameistarana ekki hafa fengið að vita mikið meira um efni fundarins.

„Þetta er svona fundur um samstarf skólanna á þessu svæði,“ segir Jón Már. „Þetta er í fyrsta sinn sem fundað er um það sérstaklega af hálfu ráðuneytisins. Við höfum rætt hér á þessu svæði um aukið samstarf og vorum með samstarfsvettvang til skamms tíma, en það lagðist af. Það er bara verið að taka það upp, að einhverju leyti, á ný.“

Unnið hefur verið að því innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins að skoða mögulega sameiningu eða samvinnu hinna og þessa skólastofnana landsins. Til að mynda lagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra í fyrra til sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Nú stendur svo til að Iðnskólinn í Hafnarfirði renni inn í Tækniskólann. Jón Már telur það jákvætt að skoða aukið samstarf menntaskólanna þriggja á Norðurlandi.

„Í þessu felast náttúrulega heilmikil tækifæri fyrir skóla,“ segir hann. „Nú er verið að tala um, og hrinda í framkvæmd, þriggja ára skóla og þá er um að gera að nýta tækifæri til þess að hugsa út fyrir hinn hefðbundna ramma sem gilt hefur í þessu.“

Jón segir að ráðherra muni ekki sjálfur mæta á fundinn á morgun, heldur embættismenn ráðuneytisins.

„Ég held að þetta sé svona hringferð um landið, skilst mér, þar sem verið er að fjalla um þetta í landshlutunum,“ segir Jón Már. „Það hlýtur að verða svo tekið á sama hátt á Reykjavíkursvæðinu, því að ef það er möguleiki á samstarfi, ég tala nú ekki um sameiningu, á landsbyggðinni, þá eru náttúrulega alveg hreint ótal tækifæri á höfuðborgarsvæðinu.“


Tengdar fréttir

Unnið að sameiningu Iðnskólans og Tækniskólans

Svo gæti farið að Iðnskólinn í Hafnarfirði renni inn í Tækniskólann. Nefnd innan ráðuneytis menntamála vinnur að fýsileikakönnun á samrunanum. "Höfum áhyggjur af stöðu mála,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir.

Skoða mögulegan samruna þriggja háskóla

Menntamálaráðuneytið skoðar möguleika á auknu samstarfi, og jafnvel samruna, Landbúnaðarháskólans, Háskólans á Hólum og Háskólans á Bifröst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×