Innlent

Beitti stjúpdóttur bardagaíþróttabragði en 15 ára sonur kom til bjargar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stúlkan sagði stjúpföður sinn hafa verið "útúrruglaðan“ og byrjað að "hrauna“ yfir móður hennar. Hún hefði þá vinsamlegast beðið ákærða að fara út af heimilinu. Hafi hann þá byrjað að henda til hlutum.
Stúlkan sagði stjúpföður sinn hafa verið "útúrruglaðan“ og byrjað að "hrauna“ yfir móður hennar. Hún hefði þá vinsamlegast beðið ákærða að fara út af heimilinu. Hafi hann þá byrjað að henda til hlutum. Vísir/Getty
Karlmaður búsettur á Suðurnesjum hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á stjúpdóttur sína og beitt brögðum sem þekkjast úr bardagaíþróttum fyrir utan heimili þeirra í júní 2013.

Stúlkan, móðirin og faðirinn báru ekki vitni fyrir dómi en 15 ára sonur mannsins, sem kom stjúpsystur sinni til bjargar, breytti framburði sínum verulega. Hann hafi ekki áttað sig á því við fyrri skýrslutöku að pabbi hans væri bara „crazy og fyllibytta“. Hann hefði ekki viljað koma honum í vandræði.

Ólík sýn á atburðarásina

Árásin átti sér stað þann 24. júní 2013. Svo virðist sem ósætti hafi komið upp í herbergi stúlkunnar. Hún sagði stjúpföður sinn hafa verið „útúrruglaðan“ og byrjað að „hrauna“ yfir móður hennar. Hún hefði þá vinsamlegast beðið ákærða að fara út af heimilinu. Hafi hann þá byrjað að henda til hlutum.

Síðar hefði hann tekið hana hálstaki, hótað lífláti, elt hana út úr húsinu og ógnað með hnífi. Fyrir utan húsið hafi hann „rennitæklað“ hana niður, kýlt hana og sett hana í fótlás og tekið hálstaki þannig að hún hafi ekki getað andað. Stúlkan gat ekki lýst hnífnum sem hún sagði manninn hafa ógnað sér með.

Bar stjúpfaðirinn því við að hafa séð kannabisplöntur í herbergi hennar og orðið reiður. Sagði hann stúlkuna hafa „hrópað yfir sig skít“ og skellt hurð á hné hans. Hann neitaði að hafa verið með hníf og tekið stjúpdóttur sína hálstaki. Hann hefði ýtt henni niður til að ná henni niður en ekki veitt henni neina áverka. Þá hefði hann ekki hótað henni en mögulega notað niðrandi orð.

Hvorki móðir né faðir vildu tjá sig í dómssal

Maðurinn neitaði að tjá sig um málið fyrir dómi og hið sama gilti um móður stúlkunnar og stúlkuna sjálfa.

„Ég tel það best fyrir mig og mína að ég tjái mig ekki um þennan atburð“ og kvaðst ekki svara frekari spurningum um málið,“ sagði móðir stúlkunnar.

Sonur mannsins bar hins vegar vitni í málinu úr barnahúsi. Hann sagðist ekki muna hvernig atvikið byrjaði en mundi eftir atburðum fyrir utan húsið. Þar hafi faðir hans verið með fætur utan um háls stúlkunnar og reynt að ná af henni símanum. Drengurinn hafi reynt að rífa föður sinn af stúlkunni þar sem hann hafi talið að hann myndi meiða hana eða kyrkja.

Bragð úr bardagaíþróttum

Faðir hans hafi verið drukkinn og var stjúpdóttirin að tuða í honum vegna þess. Faðirinn hafi orðið pirraður og byrjað að brjóta hluti. Svo hafi hann reynt að taka símann af stúlkunni og þau hlaupið út.

Þar hafi maðurinn ráðist á stúlkuna, skellt henni niður, tekið í hendur hennar og tekið með fætinum eða kálfanum utan um hálsinn á henni og væri þetta bragð notað í bardagaíþróttum. Hafi það litið þannig út að hann væri að kyrkja stúlkuna. Drengurinn hafi sjálfur reynt að öskra á ákærða og síðan rifið ákærða af brotaþola. Síðan hafi hann farið inn með föður sínum og haldið til þar þangað til lögregla mætti á svæðið.

Sjá einnig:Gert að víkja úr dómssal á meðan sonurinn ber vitni

Ítrekað spurður hvort stjúpfaðirinn hafi beitt fótum á stúlkuna sagði sonurinn að það væri það sem hann minnti. Spurt af hverju hann hafi gefið töluvert aðra skýrslu hjá lögreglu þann hausið 2013 sagðist hann hafa verið hræddur um að pabbi hans myndi lenda í töluverðum vandræðum og hann því sleppt mörgu. Hafi hann ákveðið þetta sjálfur. Hann hafi ekki áttað sig á því þá að pabbi hans væri bara „Crazy og fyllibytta“.

Horfði á árásina úr bíl

Maður sem ók framhjá húsinu umræddan dag bar vitni fyrir dómi. Hann sagðist hafa séð útundan sé konu koma hlaupandi og mann á eftir henni. Taldi hann manninn hafa sparkað konuna niður, sest ofan á hana og látið höggin dynja á henni. Á eftir þeim hafi komið lítill strákur sem hafi byrjað að rífa í manninn sem var ofan á konunni. Hafi hann flautað þegar þetta gerðist.

Dómurinn taldi framburð vitnisins trúverðugan þótt vitnið hefði talið son mannsins töluvert yngri en hann var í raun og veru. Þá kemur fram að ekkert í gögnum málsins styðji að brotið hafi verið hluti af slagsmálum eða að stúlkan hafi verið upphafsmaður að áflögunum.

Málið leyst innan fjölskyldunnar

Maðurinn hefur sjö sinnum hlotið refsingu frá árinu 1996 en brotin hafa ekki áhrif til refsingar nú. Þá hafi tæpt hálft ár liðið frá því að ákæra var gefin út þar til dómur féll. Auk þess virðist málið hafa verið leyst innan fjölskyldunnar.

Var maðurinn dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir árásina og þarf því ekki að afplána dóm nema hann brjóti skilorðið innan þriggja ára.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×