Innlent

Eftirmaður Eyþórs gæti tekið ákvörðun um flutning starfsmanna

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sjávarútvegsráðherra hefur fallið frá kröfu um að starfsmenn Fiskistofu, að fiskistofustjóra undanskildum, flytji til Akureyrar. Þetta kom fram á fundi ráðherra með fiskistofustjóra í dag. Starfsmenn telja þetta fullnaðarsigur í baráttu gegn flutningi. 

Í bréfi atvinnuvegaráðuneytisins til Fiskistofu sem afhent var í dag kemur fram að enn standi til að stofnunin flytji norður að fenginni lagaheimild en ekki standi til að flytja starfsmenn að undanskildum fiskistofustjóra. Síðan segir í bréfinu: „Aðrir núverandi starfsmenn stofnunarinnar sem starfa á höfuðborgarsvæðinu hafa val um starfsstöð milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins. Fiskistofustjóri tekur ákvörðun um fyrirkomulag og tilhögun starfsstöðva þeirra starfsmanna sem síðar verða ráðnir til stofnunarinnar.“

Ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að flytja Fiskistofu til Akureyrar olli miklum taugatitringi meðal starfsfólks þegar hún var kynnt í fyrra. Starfsfólk stofnunarinnar upplifir tíðindi dagsins sem fullnaðarsigur í baráttu gegn flutningi á störfum. „Fullnaðarsigur að mati starfsmanna Fiskistofu,“ segir Guðmundur Jóhannesson í tölvupósti til fjölmiðla. 

„Ég heyri að starfsfólk upplifir það þannig og það er mjög jákvætt en þetta er aðeins einn þáttur af mörgum óvissuþáttum sem þarf að eyða. Núna er þessi farinn út af borðinu en aðrir standa eftir,“ segir Eyþór Björnsson fiskistofustjóri. 

Eyþór er sá eini sem flytur norður. Eftir stendur að fiskistofustjóri tekur ákvörðun um flutning starfsmanna.

Þannig að eftirmaður þinn í embætti gæti tekið ákvörðun um að flytja þessa starfsmenn norður?

„Já og ég gæti það líka. Þetta er bara heimild sem embættið hefur til að flytja starfsfólk á milli starfsstöðva ef þurfa þykir og ef hægt er að rökstyðja. Þannig að það er auðvitað ennþá inni í myndinni og er óbreytt frá valdheimild forstjóra,“ segir Eyþór.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×