Innlent

Newspeak einkennir tal pólitíkusa

Jakob Bjarnar skrifar
Þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkanna eru skæðari en aðrir stjórnmálamenn í að brúka newspeak, að sögn Telmu.
Þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkanna eru skæðari en aðrir stjórnmálamenn í að brúka newspeak, að sögn Telmu.
Telma Geirsdóttir var að ljúka B.A.-námi við Háskóla Íslands og efni lokaritgerðar hennar er athyglisvert; nefnilega Newspeak og orðræða íslenskra stjórnmálamanna.

Newspeak er tungumál sem rithöfundurinn George Orwell bjó til fyrir skálsögu sína 1984. Hann sá fyrir að forsenda alræðisríkis væri misbeiting tungumálsins og svo virðist sem þvaðurskennd orðræða stjórnmálamanna dagsins í dag beri dám af þessu; þeir virðast vísvitandi brengla tungumálið, merkingu orða og hugtaka, í pólitískum tilgangi.

Telma segist ekki, í sjálfu sér, hafa gert markvissa könnun á því hvort einhver stjórnmálaflokkur er öðrum verri í þessu en annar. „En, það virðist samt vera þannig að ríkisstjórnaflokkarnir núverandi beiti þessu i meiri mæli en aðrir. Að minnsta kosti eru flest dæmin sem ég fann frá þeirra stjórnmálamönnum komin.“

Þetta virðist liggja í hlutarins eðli, þeir eru ráðandi. Telma segir engan einn stjórnmálamann skera sig úr. „Þetta virðist vera orðinn hluti af orðræðunni þeirra flestra. Svo er það líka þannig að það er mikil samvinna í því að koma svona hugtökum og breyttum merkingum út til almennings með sífelldum endurtekningum við hvert tækifæri sem gefst.“

Hrollvekjandi framtíðarsýn rithöfundarins skarpa, George Orwell, hefur í ýmsu raungerst.
Skrauthvörf og brenglun merkingar

En, hvað kom til að Telma lét þetta til sín taka í lokaverkefni sínu? Hún segir að hugmyndin sé komin frá leiðbeinanda hennar, Eiríki Rögnvaldssyni. „Ég er sem sagt með íslensku sem aðalgrein og fjölmiðlafræði sem aukagrein svo mig langaði að tengja það saman i ritgerðinni. Þegar hann stakk upp a þessu var ég strax mjög forvitin og það kom mér i rauninni á óvart hversu margir hafa velta fyrir sér Newspeak í íslensku.“

Telma byrjaði að rannsaka efnið í janúar. „Fyrst þurfti ég að lesa 1984, ég hafði aldrei lesið hana áður. Svo fór ég að skrifa það sem ýmsir hafa skrifað um Newspeak, finna dæmi og greina þau út frá þeim einkennum Newspeak sem Orwell talar um í „Princeple of Newspeak“, sem er viðauki við 1984; helstu einkennin eru skrauthvörf, (sem er að fegra eða milda orðalag fremur en nota gegnsæ orð sem gætu hugsanlega hneykslað) og þau að brengla merkingar hugtaka og orða. Ég grúskaði í þessu sérstaklega í um fjóra mánuði.“

Í Norður Kóreu vilja valdhafar stjórna því hvernig tungmálið er notað -- augljóslega til að tryggja völd sín og yfirráð.
Norður Kórea sláandi dæmi um newspeak

Í ritgerðinni er ekki sérstaklega gerður samanburður á milli landa, það er tungutaks erlendra stjórnmálamanna og svo íslenskra. „Ég kafaði ekki neitt svakalega djúpt í það en studdist við mjög áhugaverða grein eftir bandarískan blaðamann, Rebeccu Theodore, sem skrifaði um newspeak í nútímanum í orðræðu bandarískra stjórnmálamanna. Síðan kom ég aðeins inn á það að Norður Kórea er eiginlega besta dæmið sem við höfum í nútímanum um áhrifamátt þess að beita Newspeak,“ segir Telma: Að valdhafar vilji stjórna tungumáli og merkingu orða og hugtaka. „Það er í rauninni ótrúlega skuggalegt, hvernig þróunin í Norður Kóreu hefur verið eftir seinni heimsstyrjöldina og keimlík Oceania í skáldsögunni hans Orwell. Norður Korea og sennilega Bandaríkin (þó ég nefni þetta með fyrirvara) eru mun ósvifnari i notkun Newspeak heldur en Íslendingar. Þetta virðist samt vera að færast í aukana hér og það er vissulega áhyggjuefni því þetta hefur mjög mikil áhrif á tungumálið,“ segir Telma.

Búa til ný orð og hugtök

Hún segir að Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri og bloggari, hafi skrifað pistla um þetta og þar sé að finna ágæt dæmi. „Ótrúlega áhugavert er að skoða orðalistana sem hann hefur sett saman, með eins konar „þýðingum“ á orðalagi stjórnmálamanna. Og það verður að segjast að það sem ég hef skoðað, mest á bilinu 2008 til dagsins i dag, að þetta er vissulega meira áberandi hjá ákveðnum stjórnmálaflokkum. Það virðist sem nokkrir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn séu rosalega flinkir í þessu en það er mjög erfitt að segja til um hvort það sem meðvitað eða ekki. Þeir eru ekki að beita ollum þeim einkennum Newspeak sem Orwell telur upp en það er rosalega algengt að þeir bjagi merkingu orða og hugtaka eða hreinlega búi til eitthvað nýtt.“

Þeir sem skipa ríkisstjórn Íslands hafa verið öðrum duglegri við að bregða fyrir sig Newspeak.visir/gva
Forsendubrestur besta dæmið

Þær niðurstöður koma líklega ekki á óvart, sé litið til síðustu kosninga þar sem menn töluðu fjálglega um ástandið; ný hugtök litu dagsins ljós og önnur öðluðust glænýja merkingu í munni stjórnmálamannanna.

„Ég held að uppáhaldsdæmið mitt sé orðið „forsendubrestur“, því það veit enginn hvað þetta orð þýðir i rauninni. Það er líka aldrei notað nema þegar það er verið að tala um „skuldaleiðréttinguna“.  Samt er þetta orð sem allir hafa heyrt og allir tengja þetta við ákveðið málefni án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað orðið felur i sér.“

Að sögn Telmu vörpuðu stjórnmálamenn með þessu fram orði sem á að útskýra eitthvað tiltekið mál, eða atriði, en geri það í rauninni ekki. „Þetta er svo bara í rauninni spurning um að þeir segi orðin og hugtökin nógu oft í fjölmiðlum og þess háttar og þá tekur almenningur við þessu og flestir efast ekkert um orðin – velta ekkert endilega fyrir hvaða merkingu þau í rauninni hafa. Það er líka hægt að sjá einkenni Newspeak í hugtakinu „pólitískur ómöguleiki“. Það átti að útskýra fyrir almenningi að það væri gjörsamlega ómögulegt fyrir ríkisstjórn sem er á móti Evrópusambandsaðild að sitja við samningagerð við sambandið. En, að sjálfsögðu er ekkert ómögulegt að standa í samningaviðræðum hvort sem þú ert á móti einhverju eða ekki. Þeir bara vilja það ekki svo það hentar vel að tala um það sem ómögulegt. Með því að kasta svona hugtaki fram í fjölmiðlum þar, sem hann nær til margra, er hægt að fá almenning til þess að trúa því sem ríkisstjórnin heldur fram, að það sem ómögulegt að ganga inn í ESB. Og, eins og með allt munu margir gleypa við því – en auðvitað eru margir sem munu ekki gera það.“

Sigurður Pálsson segir stjórnmálamenn vaða á skítugum skónum yfir samband orðs og merkingar.visir/stefán
Heimili = skuldafen

Telma nefnir til sögunnar kunnugleg orð sem urðu á allra vörum í og eftir síðustu kosningar. „Heimili“ og „leiðrétting“ eru vitaskuld orð og hugtök sem hafa öðlast nýja merkingu eftir að tilteknir stjórnmálamenn fóru að nota þau ótæpilega og nota í pólitískum tilgangi.

„Já, einmitt. Það mætti í rauninni segja að „heimili“ sé farið að þýða skuldafen.“

Telma segir að svo virðist sem þessi árátta sé til þess að gera ný af nálinni, þó stjórnmálamenn hafi vitaskuld alltaf viljað notfæra sér margræðni tungumálsins. „En, það er náttúrlega ekki gott ef þetta er að færast verulega í aukana, sem þetta virðist vera að gera. Sigurður Pálsson orðaði þetta ótrúlega vel í ræðu á Austurvelli þegar hann sagði stjórnmálamenn vaða á skítugum skónum yfir samband orðs og merkingar. Eftir að hafa kynnt mér þetta hef ég eiginlega mestar áhyggjur af því að fólk gleymi að svona taka svona hugtökum og ákveðinni orðanotkun með fyrirvara. Það ættu allir að geta gengið að því sem vísu að skilja móðurmál sitt.

En, ef verið er að breyta merkingu orða i einhverjum ákveðnum tilgangi þá skapast svo mikill ruglingur og það hefur áhrif á það hvernig tungumálið þróast. Svo er líka ekki gott að geta ekki treyst orðræðu þeirra sem stjórna samfélagi okkar. Það er erfitt og þreytandi að þurfa alltaf að taka öllu með fyrirvara. Og þá fer fólk bara að apa upp orð og hugtök og ekki endilega einu sinni viðurkenna að þau hafi ekki hugmynd um hvað það þýða. Þá fara allir að leika sama leikinn og stjórnmálamenn komast upp með að segja hvað sem er og brengla merkingu eftir hentugleika.“

Fjölmiðlar hafa ekki veitt nokkra viðspyrnu sem heitið getur; heldur sturtað newspeaki pólitíkusa óheftu yfir mannskapinn.
Ekki þarf að fjölyrða um skaðsemi þessa, þá jafnvel á stoðir samfélagsins alls sem hlýtur að byggja á því að sameiginlegur skilningur ríki á lykilhugtökum og merkingu orða. Telma ítrekar að erfitt sé að átta sig á því hvort þetta er gert meðvitað eða um sé að ræða hreina og klára vanþekkingu.

Fjölmiðlar hafa brugðist

En, hvað finnst Telmu þá um þátt fjölmiðla? Þeir hafa þessa orðræðu eftir? Telmu finnst mikið á skorta að blaða- og fréttamenn hafi sett nægjanlega fyrirvara á málflutning sem einkennist af Newspeak.

„Þeir hafa þetta eftir og apa og almenningur þar með. Það er auðvitað ekki alveg það sama að segja eitthvað í sjónvarpsviðtali eins og að segja það í prentuðu viðtali en það þarf að eiga sér stað einskonar vitundarvakning varðandi tungumálið meðal fjölmiðlafólks.“

Telma segir að með þessum hætti vilji stjórnvöld móta skoðanir almennings, hafa á þeim stjórn og segja fólki hvað og hvernig það eigi að hugsa. „Þó þetta sé á grunnstigi á Íslandi er það ekki tilfellið til dæmis í Norður Kóreu. Til er endalaust af dæmum í gegnum tíðina um áhrifamátt þess að vilja hafa áhrif á tungumálið með þessum hætti. Ég meina, Hitler notaði tungumálið markvisst til að afla sér fylgismanna og við vitum öll hvernig það endaði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×