Formúla 1

Arrivabene: Þarf ekki Hamilton meðan ég hef Vettel

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Sebastian Vettel, Maurizio Arrivabene og Kimi Raikkonen ræða málin eftir kappaksturinn í Kína.
Sebastian Vettel, Maurizio Arrivabene og Kimi Raikkonen ræða málin eftir kappaksturinn í Kína. Vísir/Getty
Liðsstjóri Ferrari, Maurizio Arrivabene þvertekur fyrir orðróm um að Ferrari sé að gera hosur sínar grænar fyrir heimsmeistaranum Lewis Hamilton.

Kimi Raikkonen hefur enn ekki fengið endurnýjaðan samning sinn við Ferrari en núverandi samningur rennur út við lok ársins.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að Ferrari vilji fá Hamilton inn sem eftirmann Raikkonen.

Raikkonen hefur hins vegar staðið sig mjög vel að undanförnu, sérstaklega eftir að Arrivabene setti oprinberlega pressu á Finnan um að standa sig til að halda sæti sínu hjá liðinu.

Hamilton á enn eftir að setja penna á blað hjá Mercedes fyrir næsta tímabil. Því hefur verið haldið fram síðan í janúar að það styttist í að samningar náist og að aðeins sé um tæknileg, lögfræðileg úrlausnar efni að ræða og þau verði leyst hratt og örugglega.

Samningar hafa enn ekki náðst í herbúðum Mercedes og ýtir það enn frekar undir orðróminn sem Arrivabene neitar svo ákaft að eigi sér stoð í raunveruleikanum.

„Ég þarf ekki Lewis Hamilton þegar ég er með þungavigtar ökumann eins og (Sebastian) Vettel. Ég myndi frekar leita að ungum hæfileikaríkum ökumönnum til að aka við hlið Sebastian,“ sagði Arrivabene.

Athugasemdin um unga efnilega ökumenn gefur byr undir báða vængi öðrum orðrómi. Margir spekingar telja að Ferrari sé þegar búið að semja við Valtteri Bottas sem nú ekur fyrir Williams liðið. Bottas er ungur og þykir afar efnilegur.

Aðspurður hvort sú væri raunin sagði Arrivabene: „Ég lofaði á undirbúningstímabilinu að ég myndi aldrei ljúga að fjölmiðlum, en hvað þetta mál varðar er of snemmt að gefa nákvæmt svar,“ sagði liðsstjórinn að lokum.


Tengdar fréttir

Moss: Rosberg vinnur Hamilton aldrei

Formúlu 1 goðsögnin Stirling Moss segir að Nico Rosberg eigi ekki möguleika á að vinna Lewis Hamilton í baráttunni um heimsmeistaratitil á meðan þeir eru í sama liði.

Bílskúrinn: Barátta í Barein

Lewis Hamilton rétt náði að koma fyrstur í mark í spennandi keppni. Pastor Maldonado tókst ekki að klára og Valtteri Bottas varðist vel.

Eyðsluþak með snúning

Fyrrum forseti FIA, Max Mosley hefur lengi verið talsmaður einhverskonar eyðsluþaks í Formúlu 1. Hann hefur nú komið fram með nýja hugmynd um útfærslu á slíku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×