Innlent

Líkamsárás á Laugavegi: Neitaði að skila síma og fékk hringspark í höfuðið

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Myndin er frá Austurstræti en árásin átti sér þó stað á Laugavegi.
Myndin er frá Austurstræti en árásin átti sér þó stað á Laugavegi. Vísir/Kolbeinn Tumi
Karlmaður var í dag sakfelldur í Hæstarétti fyrir líkamsárás með því að hafa hafa sparkað í tvígang af miklu afli í höfuð og andlit annars manns með þeim afleiðingum að hann hlaut bólgu á efri og neðri vör, bólgu í kringum vinstra auga og hruflsár á vinstri framhandlegg. Ákærði neitaði sök.

Atvikið átti sér stað aðfaranótt 9. mars 2013 á Laugavegi 29 og áttu samkvæmt dómi Hæstaréttar þau upptök að sá sem varð fyrir árásinni hafi neitað að skila manninum síma sem hann hefði fengið lánaðan.

Þá sparkaði ákærði í þann sem hafði fengið símann lánaðan. Vitni báru síðan fyrir um að hann hefði ekki hætt þá heldur sparkað í manninn liggjandi á jörðinni.

Sparkaði í höfuð mannsins oftar en einu sinni

„Vitnin B, C og D gáfu skýrslu hjá lögreglu í maí 2013. Þau báru öll á þann veg að eftir að brotaþoli féll í götuna hefði ákærði sparkað oftar en einu sinni í höfuð hans. Kvað B síðara sparkið hafa verið ,,fast sparkhögg í andlitið“, en C bar á þann veg að ákærði hefði sparkað fast í höfuð brotaþola og í kjölfarið hafi annað spark fylgt á vanga brotaþola. 



Vitnið D kvað ákærða hafa sparkað ,,tveimur föstum spörkum í höfuð“ brotaþola. Fyrir dómi bar B að ,,í minningunni“ hefðu spörkin verið fleiri en eitt. Vitnið C bar fyrir dómi að hann héldi að spörkin hefðu verið fleiri en eitt og þau hafi lent á vanga brotaþola, en gat þó ekki með fullri vissu staðhæft hvar spörkin lentu á höfði hans.

Fyrir dómi bar vitnið D að hún og vinkona sín hefðu orðið vitni að átökum og farið að skipta sér af, þar sem ekki sé ,,gott að sparka í liggjandi fólk“og hafi þær náð að stöðva árásina. Hún hafi séð liggjandi mann og ákærða ,,sparka ítrekað í hann,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Maðurinn hefur áður verið dæmdur fyrir líkamsárás. Við ákvörðun refsingarinnar var við ákvörðun refsingar litið til þess að áflog hefðu verið undanfari líkamsárásarinnar en sá sem slasaðist hafði upphaflega slegið til ákærða með símanum sem hann hafði fengið í láni.

Maðurinn fékk því 15 mánaða fangelsisdóm að fullu skilorðsbundinn. Refsingin var nokkuð milduð frá dómi héraðsdóms en þá fékk maðurinn 1. árs og 10 mánaða fangelsisvist, óskilorðsbundna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×